Innlent

Lögregla með sjálfstæða rannsókn á falli Sunnu Elviru

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Hér liggur Sunna Elvira inni á sjúkrahúsi á Spáni. Sunna lamaðist við fallið.
Hér liggur Sunna Elvira inni á sjúkrahúsi á Spáni. Sunna lamaðist við fallið. Vísir/Egill
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hafið sjálfstæða rannsókn á því hvort Sigurður Kristinsson, eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, hafi átt þátt í því að Sunna féll niður um fjóra metra á heimili þeirra í Málaga á Spáni. Fréttablaðið greinir frá.

Sunna slasaðist alvarlega við fallið og er í dag lömuð.

Sunnu hefur verið skipaður réttargæslumaður og tekin af henni skýrsla. Sunna hefur ekki sjálf lagt fram kæru í málinu og er rannsókn lögreglunnar sjálfstæð.

Fulltrúi lögreglunnar vildi ekki tjá sig um hvort umrædd rannsókn væri í gangi, í samtali við Fréttablaðið.

Sigurður var hnepptur í gæsluvarðhald hjá lögreglunni á Spáni í kjölfar slyssins. Honum var sleppt ekki löngu síðar.

Við komuna til Íslands, viku síðar, var Sigurður handtekinn á ný. Honum var sleppt föstudaginn síðasta en þá hafði hann verið í haldi í alls tólf vikur. Tólf vikur er hámarkslengd gæsluvarðhalds án þess að sakborningi hafi verið birt ákæra.

Sigurður hefur játað aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi. Er hér vísað í Skáksambandsmálið svokallaða þar sem fimm kíló af amfetamíni, falin í skákmönnum, voru send til landsins, stíluð á Skáksamband Íslands.

Sigurður hefur áður gerst sekur um afbrot og er í dag undir rannsókn lögreglu vegna stórfelldra skattaundanskota.

Sigurður fékk uppreist æru árið 2013, meðal annars fyrir tilstilli meðmæla frá listmálaranum Tolla. Brot Sigurðar fólst í því að hann hafi í júlí árið 2003, ásamt öðrum, kveikt í einbýlishúsi í Laugardal. Sigurður var í héraðsdómi dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi en dómurinn var staðfestur í Hæstarétti.

Félagið SS verk sem Sigurður átti ásamt bróður sínum og stjúpföður var tekið til gjaldþrotaskipta þann 10. janúar síðastliðinn. Sigurður er, ásamt tveimur öðrum, til rannsóknar vegna meintra skattsvika í gegn um fyrirtækið. Upphæð meintra svika nær tæpum 105 milljónum króna.

 


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir 50 milljóna króna skattsvik

Sigurður Ragnar Kristinsson, eiginmaður Sunnu ­Elviru Þorkelsdóttur, og tveir aðrir hafa verið ákærðir fyrir skattsvik sem tengjast fyrirtækinu SS verk ehf. Meint skattsvik nema um 100 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×