Frá og með 1. maí næstkomandi mega ökumenn sem nota farsíma án handfrjáls búnaðar undir stýri búast við 40 þúsund króna sekt. Ríkissaksóknari gerði þá tillögu til dómsmálaráðherra í fyrra að hækka sektir við notkun farsíma við stjórnun ökutækja. Sektin hefur til þessa numið 5 þúsund krónum en hækkar upp í 40 þúsund sem fyrr segir, að tillögu ríkissaksóknara. Er því um áttföldun á sektarupphæðinni að ræða.
Könnun sem Sjóvá lét framkvæmda um mitt síðasta ár leiddi í ljós að fimm af hverjum sex framhaldsskólanemum hér á landi notar snjallsíma undir stýri. Jafnframt bendir könnunin til að notkun aukist með hækkand aldri.
Í skýrslu sem gerð var af Samgöngustofu árið 2016 um aksturshegðun almennings má sjá að meirihluti eða 85 prósent telja stórhættulegt, mjög hættulegt eða frekar hættulegt að nota síma undir stýri án handfrjáls búnaðar.
Um 500 ökumenn eru kærðir árlega fyrir notkun farsíma við aksturinn en mest hafa rúmlega 900 verið kærðir á einu ári fyrir að nota símann undir stýri.
Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, sagði í samtali við Vísi á sínum tíma að rekja megi banaslys til farsímanotkunar ökumanna. Hann bætti því við að þau banaslys séu notuð í forvarnarefni stofnunarinnar.
Sektin áttfaldast um næstu mánaðamót

Tengdar fréttir

Fjörutíu þúsund króna sekt fyrir að nota síma undir stýri
Ríkissaksóknari leggur til að sektir fyrir að nota farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar áttfaldist og verði 40.000 krónur.

Sektir vegna notkunar farsíma undir stýri hækka verulega
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur nú að því að endurskoða sektir vegna farsímanotkunar undir stýri.

83 prósent nota símann undir stýri
Samgöngustofa ætlar af stað með til að draga úr notkun og auka öryggi í umferðinni.