Innlent

Íris leiðir nýjan lista í Eyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV, leiðir lista nýs félags í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV, leiðir lista nýs félags í Vestmannaeyjum. Vísir
Íris Róbertsdóttir formaður ÍBV mun leiða framboðslista nýstofnaðs bæjarmálafélags í Vestmannaeyjum, Fyrir Heimaey, í sveitastjórnarkosningunum í vor. Íris staðfestir þetta á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Íris segist hafa ákveðið að verða við áskörun um að gefa kost á sér í fyrsta sæti lista hins nýja félags.

„Ég er stolt og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með þessari áskorun. Þessa ákvörðun hef ég tilkynnt forsvarsmönnum hins nýja bæjarmálafélags - Fyrir Heimaey,“ skrifar Íris.

Tilkynnt var um framboð félagsins Fyrir Heimaey í vikunni en formaður þess er Leó Snær Sveinsson. Þá voru Kristín Hartmannsdóttir, Kristín Ósk Óskarsdóttir, Rannveig Ísfjörð og Leifur Gunnarsson einnig kjörin í stjórn.

Þá hefur nokkur ólga verið innan Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, sem þar hefur farið með völd undanfarin ár, en ekkert varð af sögulegu prófkjöri sem átti að halda innan flokksins.

Þá kom fram í vikunni að Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, skipar að eigin beiðni fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor  eftir 12 ár í fyrsta sæti listans. Íris hafði sjálf talað mjög fyrir prófkjöri.


Tengdar fréttir

Ekkert verður af sögulegu prófkjöri í Eyjum

Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélagsins þar í bæ kaus í kvöld gegn því að halda prófkjör en tillaga um að stillt yrði upp á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor náði ekki 2/3 atkvæða í desember og var því felld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×