Innlent

Alhvít jörð í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands fer talsverður úrkomubakki yfir höfuðborgarsvæðið nú fyrir hádegi en búast má við að mesta ofankoman verði gengin yfir fyrir hádegi í dag.
Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands fer talsverður úrkomubakki yfir höfuðborgarsvæðið nú fyrir hádegi en búast má við að mesta ofankoman verði gengin yfir fyrir hádegi í dag. Vísir

Alhvít jörð blasti við Reykvíkingum í morgun en búast má við talsverðri ofankomu fram að hádegi. Snjódýpt mældist níu sentímetrar í Reykjavík klukka níu í morgun. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands fer talsverður úrkomubakki yfir höfuðborgarsvæðið nú fyrir hádegi en búast má við að mesta ofankoman verði gengin yfir fyrir hádegi í dag. Einhver snjókorn gætu fallið af himni á höfuðborgarsvæðinu eftir hádegi í dag.

Veðurfræðingurinn sagði að snjónum hefði verið talsvert misskipt á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Til að mynda var auð jörð víðs vegar í Kópavogi í morgun á meðan alhvítt var í Reykjavík. Þá hefur snjóað talsvert í Keflavík í morgun og varð meðal annars röskun á flugi vegna hennar.

Snjódýpt mældist níu sentímetrar í Reykjavík í morgun. Vísir/Sigurjón Ólason

Í hugleiðingu veðurfræðings sem birt er á vef Veðurstofunnar kemur fram að ekki sé ákjósanlegasta færðin til að ferðast og eru ferðalangar hvattir til að fylgjast með færð á vegum. Ferðaveður skánar norðanlands síðdegis en versnar sunnanlands. Útlit er fyrir að það snjói á köflum við Faxaflóa og á Austfjörðum fram eftir kvöldi.

Hálka er á Hellisheiði en snjóþekja víða í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og krap eða hálkublettir á Suðurnesjum. Hálkublettir eru einnig á Höfuðborgarsvæðinu.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vesturlandi.

Vestfirðir hafa að miklu leyti sloppið við snjókomu en þó hefur snjóað við Breiðafjörð, á Steingrímsfjarðarheiði og á Ströndum. Þarna er langt komið að hreinsa.

Snjóþekja er á vegum á Norðurlandi austur að Eyjafirði en á Norðaustur- og Austurlandi er víðast autt. Hálka er á Vatnsskarði eystra en hálkublettir á Fjarðarheiði.

Snjóþekja er á Öxi - og frá Djúpavogi er ýmist snjóþekja eða hálkublettir á köflum með Suðausturströndinni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga: 

Á morgun:
Norðan og norðaustan átt, víða 10-15 m/s á morgun en norðvestan 15-20 austast. Él á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti yfir frostmarki með suður- og vesturströndinni að deginum, annars frost 0 til 8 stig en talsvert næturfrost í innsveitum norðanlands.

Á miðvikudag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma eða él norðan- og austantil, en þurrt og bjart að mestu um landið suðvestanvert. Frostlaust syðst að deginum annars frost 2 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Minnkandi norðaustan átt, rofar og birtir til norðanlands en áfram léttskýjað sunnantil. Hiti breytist lítið.

Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku él norðantil á landinu, en yfirleitt léttskýjað um landið sunnanvert. Kalt í veðri.

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með hlýnandi veðri, en úrkomulítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.