Innlent

Vorið lætur ekki sjá sig í vikunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Snjókoma og él munu vera reglulegir gestir í vikunni.
Snjókoma og él munu vera reglulegir gestir í vikunni. VÍSIR/VILHELM
Þau eru ekki beint vorleg spákortin þessa vikuna. Landsmenn mega gera ráð fyrir snjó eða él víða á landinu í dag og getur frostið farið niður í allt að 14 stig inn til landsins. Þá mun jafnframt hvessa með morgninum og verður vindhraðinn kominn í 15 til 20 m/s við austurströndina eftir hádegi. Því er gul viðvörun í gildi fyrir Austfirði í dag og má þar gera ráð fyrir erfiðum akstursskilyrðum.

Það mun þó líklega rofa til á Suður- og Vesturlandi þegar líður á morguninn. Ef marka má kort Veðurstofunnar er þetta veður komið til að vera næstu daga, hið minnsta fram að helgi.

Þannig verður til að mynda norðan 8 til 15 m/s og él á norðanverðu landinu á morgun en léttskýjað syðra. Frostið verður á bilinu 0 til 10 stig og kaldast í innsveitum norðaustantil. Þó verður sums staðar frostlaust við suðurströndina. Heldur vetrarlegt í byrjun aprílmánaðar.



Veðurhorfur á landinu næstu 

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-15 m/s og snjókoma eða él, hvassast á annesjum, en bjart að mestu um landið SV-vert. Víða frostlaust við ströndina að deginum, frost annars 0 til 5 stig. 

Á fimmtudag:

Hæg norðaustlæg átt og dálítil él fyrir norðan, en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Hiti kringum frostmark að deginum. 

Á föstudag og laugardag:

Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum, en dálítil él fyrir norðan. Kalt í veðri. 

Á sunnudag:

Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með hlýnandi veðri og lítilsháttar vætu vestast á landinu. 

Á mánudag:

Líklega mild sunnanátt og rigning, en þurrt að kalla NA-til




Fleiri fréttir

Sjá meira


×