Innlent

Hátt í tuttugu stiga frost við Mývatn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brrrrrr.
Brrrrrr. Mynd/Veðurstofan.

Tveggja stafa frosttölur mældust í nótt á mælistöðvum í flestum landshlutum. Heiðríkja er á nánast öllu landinu og vindur hægur.

„Má þar nefna uppsveitir Suðurlands og Faxaflóa, innsveitir á Norðvesturlandi og kaldast í byggð varð á Norðausturlandi þar sem mældist 18.4 stiga frost í nótt við Mývatn. Enn kaldara varð á hálendinu og þar ber hæst 21.8 stiga frost á Kárahnjúkum, 22.8 stig á Brúarjökli og 25.2 stig á Dyngjujökli,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Áfram er útlit fyrir hægan vind og heiðríkju á stórum hluta landsins í dag.

„Þó ber að nefna að svolítil lægðabóla nálgast nú Vestfirði og eftir hádegi má búast við suðvestan 8-13 m/s af hennar völdum á norðvestanverðu landinu. Lægðin sendir einnig dálítinn éljagarð inn á vestanvert landið og má því búast við stöku éljum á þeim slóðum þegar kemur fram á daginn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Heilt yfir er gert ráð fyrir rólegu veðri á landinu um helgina. Lítið sem ekkert verður um úrkomu en áfram verður kalt að nætulagi.
Veðurhorfur á landinu
Hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Gengur í suðvestan 8-13 m/s á norðvestanverðu landinu eftir hádegi og þá stöku él vestanlands. Vestlæg átt 3-10 á morgun. Bjart veður sunnan- og austanlands. Él við norðurströndina og einnig lítilsháttar él á vestanverðu landinu framan af degi. Hiti að 6 stigum sunnanlands yfir daginn, en kringum frostmark fyrir norðan og austan. Kaldara að næturlagi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Vestlæg átt 3-8 m/s, en 8-13 nyrst á landinu. Léttskýjað sunnan- og austanlands. Él við norðurströndina og einnig lítilsháttar él á vestanverðu landinu framan af degi. Hiti að 6 stigum sunnanlands yfir daginn, en kringum frostmark annars staðar á landinu.

Á sunnudag:
Hæg suðaustlæg átt og léttskýjað, en 5-10 með suðurströndinni og skýjað. Hiti 0 til 5 stig að deginum, en um og undir frostmarki norðan- og austanlands.

Á mánudag:
Suðaustan og austan 3-8 og bjartviðri, en 8-13 sunnanlands og dálítil rigning eða slydda af og til. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:
Sunnan 5-13 og rigning með köflum, en bjart á Norður- og Austurlandi. Hvessir seinnipartinn, sunnan 13-20 um kvöldið og bætir í rigningu. Hlýnandi veður, hiti 3 til 9 stig undir kvöld.

Á miðvikudag:
Sunnan 10-18 í fyrstu og rigning, en þurrt um landið norðaustanvert. Snýst í heldur hægari suðvestanátt vestantil um hádegi með skúrum. Hiti 3 til 8 stig, en kólnar um kvöldið.

Á fimmtudag:
Suðvestan 5-13 á Suður- og Vesturlandi og dálitlir skúrir eða slydduél. Hægari sunnanátt austanlands og rigning, en styttir upp seinnipartinn. Þurrt á Norðurlandi. Hiti 1 til 7 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.