Lífið

Sviptu hulunni af kyni barnsins með hjálp krókódíls og melónu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum af meðferðinni á dýrinu, sem þeir telja ekki til fyrirmyndar.
Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum af meðferðinni á dýrinu, sem þeir telja ekki til fyrirmyndar. Vísir/Skjáskot
Myndband, þar sem par sviptir hulunni af kyni barns síns á helst til hættulegan máta, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. BBC greinir frá.

Svokölluð „gender reveal“-samkvæmi, þar sem verðandi foreldrar gera grein fyrir kyni ófædds barns síns með ýmsum aðferðum, hafa verið áberandi um nokkurt skeið. Við þessar athafnir eru foreldrarnir sjálfir einnig að hljóta vitneskju um kyn barnsins í fyrsta skipti og hafa litirnir bleikur og blár, sem tákna eiga stelpu annars vegar og strák hins vegar, verið notaðir til að skera úr um málið í flestum tilfellum.

Kliebert-fjölskyldan, sem búsett er í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, hélt samkvæmi af áðurnefndum meiði á dögunum. Aðferðin sem notuð var hefur vakið furðu og hneykslan netverja en í myndbandi, sem birt var á Facebook í vikunni, sést hvernig hinn verðandi faðir opnar kjaftinn á fjölskyldukrókódílnum og lætur hann bíta í vatnsmelónu. Melónan springur við átakið og í ljós kemur að kjötið hefur verið litað blátt – sem þýðir væntanlega að von sé á strák.

Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum yfir meðferð á krókódílnum, sem þvingaður er til að opna kjaftinn, og þá sést auk þess hvernig barn hrasar og dettur á jörðina við hlið krókódílsins.

Mike Kliebert, sem glímdi við krókódílinn í myndbandinu, sagði að fólk hefði almennt ekkert að óttast vegna málsins. Hann sé sjálfur krókódílaþjálfari „í heimsklassa“ en fjölskyldan rekur krókódílabúgarð. Umrætt myndband má horfa á hér að neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.