Innlent

Bætir í vind og éljagang í kvöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það er éljagangur í kortunum.
Það er éljagangur í kortunum. Vísir/Hanna

Gert er ráð fyrir að rofa muni til á Norðurlandi eftir því sem líður á daginn en sunnantil mun bæta í vind og éljagang með kvöldinu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá má búast við austlægri átt, víða 5-10 m/s og dálítlum éljum en lengst af þurru veðri vestantil. Rofa mun til norðanlands með deginum en bæta heldur í vind og éljagang sunnantil á landinu í kvöld og um landið vestanvert í nótt. Veðrið sem leikið hefur við íbúa höfuðborgarsvæðisins um páskahelgina mun því að öllum líkindum víkja fyrir ofankomu.

Hiti verður 0 til 5 stig í dag en um og undir frostmarki fyrir norðan. Búast má við næturfrosti og líkur eru á talsverðu frosti í innsveitum norðan- og austanlands.

Á morgun, páskadag, verður hæg breytileg átt og léttskýjað austanlands en suðlæg átt 8-13 m/s og él vestast á landinu. Él verða víða um norðanvert landið annað kvöld en rofar til syðra. En aftur austlæg átt á mánudag með dálítilum éljum víða um land, einkum sunnanlands.

Samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar, sem uppfærð var klukkan 07:01 í morgun, eru vegir greiðfærir víðast hvar á landinu. Þó er varað við hálku á Hellisheiði,  Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Þá eru hálkublettir víða á Norðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag (annar í páskum):

Norðaustlæg átt, 8-13 m/s og dálítil snjókoma eða él í flestum landshlutum, einkum S-lands. Frostlaust syðst að deginum, en frost annars 2 til 7 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Ákveðnar norðlæg áttir með snjókomu eða éljagangi á N-verðu landinu, en bjartviðri sunna heiða. Talsvert frost á öllu landinu, en sums staðar frostlaust syðst að deginum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.