Innlent

Forstjóri Orkuveitunnar spáir 100.000 rafbílum fyrir 2030

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur spáir því að innan tólf ára verði hundrað þúsund rafbílar komnir á götur Íslands og fullyrðir að nóg sé til af rafmagni fyrir svo mikla fjölgun. Þetta kom meðal annars fram á málþingi um samgöngur í Reykjavík þar sem mikil áhersla var lögð á umhverfisvænan ferðamáta.

Mikil fólksfjölgun á næstu tveimur áratugum með tilheyrandi umferðaþunga var rauði þráðurinn á málþinginu Léttum á umferðinni í dag.

Hjólreiðaáætlun, Borgarlína, Miklabraut í Stokk, rafmagnsvæðing samganga, strætó og bílastæði voru meðal umræðuefna.

Að mati Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, er borgarlínan mikilvægasta næsta skref í samgöngumálum í borginni en á fundinum voru tillögur stýrihóps vegna samgönguáætlunar ríkisins 2018-2030 kynntar. Þar er borgarlínan í fókus.

„Næstu skref er áframhaldandi samtal við ríkisvaldið, tillögurnar fara í þessa kanala sem er samgönguáætlun og fjármálaáætlun,“ segir Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindi um orkukipti í samgöngum sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, aðeins tvo þröskulda koma í veg fyrir mikla fjölgun rafmagnsbíla, annars vegar hversu langt bíllinn kemst á hleðslunni og hins vegar verðið.

Hvort tveggja sé að þróast í rétta átt og því spáir hann hundrað þúsund rafmagnsbílum á Íslandi fyrir 2030 og hefur engar áhyggjur af orkuskorti.

„100 þúsund fólksbílar taka 1,5% af því rafmagni sem er framleitt í dag. Ef við förum í 200 þúsund sem er um það bil bílafloti landsins, þá er það 3 % af því rafmagni sem við framleiðum.“ segir hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.