Í fréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 munum við fjalla um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum og munum við ræða við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Af hálfu Íslands felst þátttakan í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og embættismönnum verður frestað og íslenskir ráðamenn munu ekki sækja úrslitakeppni HM í fótbolta í Rússlandi næsta sumar.
Við fjöllum líka um metfjölda lögskilnaða hér á landi á síðasta ári samkvæmt tölum þjóðskrár en almennt fjölgar hjónaskilnuðum í góðæri.
Þá munum við ræða við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra sem vill gera fimmta árið í kennaranámi að launuðu starfsnámi og breyta námslánum að einhverju leyti í styrk. Í fréttatímanum fjöllum við einnig um nýja hleðslustöð fyrir rafbíla sem var opnuð á Mývatni í dag.
Opnun stöðvarinnar þýðir að nú er hægt að keyra allan hringveginn á rafbíl. Þá greinum við frá nýjungum í ferðaþjónustu en íslenski torfbærinn, sem fóstraði þjóðina í gegnum aldirnar, hefur öðlast nýtt líf sem lúxusgisting fyrir ferðamenn.
Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2
Þorbjörn Þórðarson skrifar