Innlent

Ferðamenn skildu bifreiðar eftir í vegkanti til að dást að norðurljósum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Norðurljósin heilla ferðamenn sem koma hingað til lands. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Norðurljósin heilla ferðamenn sem koma hingað til lands. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/ernir
Lögreglan á Suðurnesjum þurfti um síðastliðna helgi að hafa afskipti af erlendum ferðamönnum sem höfðu stöðvað bifreiðar sínar á Grindavíkurvegi til að dást að norðurljósum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þegar lögreglumenn bar að hafði mörgum bifreiðum verið lagt úti í vegkant og voru þær ljóslausar og sumar hverjar mannlausar.

„Lögreglumenn bentu ferðamönnunum góðfúslega á að þessi umferðarhegðun væri ekki í boði á vegum hér á landi. Jafnframt að þeir gætu lagt bifreiðum sínum á útsýnissvæði þar skammt frá og gætu þeir nýtt sér slík stæði á ferðum sínum um landið,“ segir í tilkynningu.

Fréttir af skipulögðum Norðuljósaferðum fyrir erlenda ferðamenn hafa ratað í fréttir undanfarna daga. Um helgina sagði leiðsögumaður til að mynda hættulegar aðstæður geta skapast í slíkum ferðum þar sem tugum rúta er lagt á litlum svæðum sem ekki eru skipulögð í þessum tilgangi. Hann taldi nauðsynlegt að huga að uppbyggingu á stæðum og útskotum á vinsælum stöðum.

Þá er þetta enn fremur ekki í fyrsta skipti sem lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að hafa afskipti af ferðamönnum sem huga ekki að umferðaröryggi þegar þeim er starsýnt á norðurljósin. Í febrúar í fyrra voru tvær bifreiðar stöðvaðar á Suðurnesjum vegna rásandi aksturslags og reyndist þar um að ræða ferðamenn sem gátu ekki haft augun af norðurljósum.


Tengdar fréttir

Ferðamenn á Ísland birta myndir við vafasamar aðstæður

Ferðamálastofa hefur reglulega minnt á að þeir sem birta myndir af Íslandi í auglýsingaskyni séu ekki að hvetja til óábyrgrar hegðunar, hvort sem er í umgengni við náttúruna, dýralíf eða eða þegar kemur að öryggissjónarmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×