Innlent

Óljós réttur neytenda varðandi gjafabréf

Höskuldur Kári Schram skrifar
Níu þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að skipaður verði starfshópur til að fara yfir verklagsreglur varðandi skilarétt neytenda og tímamörk varðandi gjafabréf og inneignarnótur. Flutningsmaður tillögunnar segir að réttur neytenda í þessum málum sé óljós og reglurnar mismunandi eftir verslunum.

Í tillögunni er lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að skipa starfshópinn og að í honum verði fulltrúar frá Neytendasamtökunum, Alþýðusambandinu, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands. Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars verslanir setji sér mismunandi reglur varðandi skilafrest og því sé réttur neytenda afar óljós. Það sama gildi einnig um gildistíma gjafabréfa og inneignarnótna.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.Vísir/Anton
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar er flutningsmaður tillögunnar.

„Þetta er mál sem hefur verið lagt fram áður. Verslunin hefur verið að setja fram sínar eigin reglur og kannski ekki alltaf í samræmi við verklagsreglur. Þetta er svolítið í lausu lofti og okkur finnst vera orðið tímabært að fara yfir þetta,“ segir Willum.

Hann segir að réttur neytenda í svona málum sé óljós.

„Það er svona ákveðin óvissa og óöryggi fyrir neytendur,“ segir Willum.

Margir kvarta til neytendasamtakanna vegna þessa og þá hafa íbúar á landsbyggðinni lent í vandræðum þar sem skilafrestur er í sumum tilfellum alltof stuttur. Willum segir að starfshópurinn eigi meðal annars að fara yfir þær reglur sem nú eru í gildi og koma með tillögur til úrbóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×