Innlent

Borgin og lögregla sameinist í baráttu gegn vændi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar leggur til aukið samstarf milli lögreglu og borgar til að stemma stigu við vændisstarfsemi sem hefur stóraukist á liðnum árum.

Borgarstjórn og ofbeldisvarnarnefnd stóðu fyrir sameiginlegum fundi um vændi og mansal í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hefur skipulagt vændi stóraukist á Íslandi á síðustu þremur árum. Í erindi sínu sagði yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar að það að panta vændiskonu í Reykjavík væri orðið jafn auðvelt og að panta pítsu þar sem konurnar séu oft keyrðar heim að dyrum kaupenda.

Verð á vændi er að meðaltali 35 þúsund krónur á Íslandi og er það með því hæsta sem gerist en talið er að það gæti aukið áhuga á starfseminni hér á landi. „Þetta eru í rauninni bara tölur sem við tökum út úr auglýsingum sem eru að koma fram. Svíþjóð er neðst með tíu þúsund krónur á meðan við erum með 35 þúsund krónur," segir Snorri Birigsson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar. 

Snorri Björnsson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar.
Nokkur vændismál eru nú til rannsóknar hjá lögreglu og Snorri segir algengt starfsemin fari fram í íbúðum sem leigður eru í gegnum síðurnar Airbnb og Booking.com. Almennt sé leitast eftir miðsvæðis íbúðum með auðveldu aðgengi. Hann telur að efla mætti samstarf milli lögreglu og borgar til að stemma stigu við vændisstarfsemi. Það yrði gert með samráði borgar við bókunarsíðurnar. 

„Hún gæti þá eflt samstarf við þær leigumiðlanir sem eru hér að leigja út íbúðir. Miðað við það sem hefur komið fram hér í dag virðist vera áhugi af þeirra hálfu til að taka þátt í því," segir Snorri „Það væri undir þeim formerkjum að spyrna gegn því að leigusalar séu að leigja til einstaklinga sem eru að gera aðila út í vændi eða til einstaklinga í vændi," segir Snorri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×