Innlent

Utanríkismálanefnd fundaði um mál Hauks Hilmarssonar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Áslaug Arna formaður utanríkismálanefndar
Áslaug Arna formaður utanríkismálanefndar visir/stefán

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun um mál Hauks Hilmarssonar sem féll í stríðsátökum í Sýrlandi í síðasta mánuði. Formaður nefndarinnar segir mikilvægt að afla sem fyrst upplýsinga um afdrif Hauks.

Talið er að Haukur hafi látið lífið þegar tyrkneski herinn gerði sprengjuárás á sjálfstjórnarsvæði Kúrda. Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um málið og hvar lík hans er að finna.

Aðstandendur Hauks funduðu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í gær en þeir vilja að utanríkisþjónustan beiti sér af meiri krafti til að afla upplýsingar um afdrif Hauks. Guðlaugur segir að málið sé í forgangi hjá ráðuneytinu en hann ræddi í gær við tyrkneska starfsbróður sinn vegna málsins.

Utanríkismálanefnd Alþingis að frumkvæði Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar óskaði eftir upplýsingum um málið en nefndin ræddi í morgun verkferla vegna Íslendinga á stríðshrjáðum svæðum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar segir ljóst að starfsmenn utanríkisráðuneytisins séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að upplýsa málið.

„Þetta er mjög einstakt mál og án fordæma hér á landi,“ segir Áslaug.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.