Innlent

Engin komugjöld á þessu ári

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Komugjöld verða ekki að veruleika á þessu ári, segir  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála. Greiningarvinna og samráð við ferðþjónustuna eigi eftir að fara fram. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að samtökin hafi alltaf verið tilbúin að skoða slík gjöld, einkum yfir háönn ferðaþjónustunnar, en hins vegar sé afar mikilvægt að horfa heildrænt á málið í allri ákvörðunartöku.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að leiðir til gjaldtöku í ferðaþjónustu verði  kannaðar í samráði við greinina, m.a. möguleikar á álagningu komu eða brottfarargjalds.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hnykkti á þessu á flokksþingi Framsóknarmanna um síðustu helgi og sagði: „Á sama tíma er einnig verið að vinna að því að koma á komugjöldum, í samstarfi við ferðaþjónustuna og aðra hagaðila.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála segir að formlegar viðræður við ferðaþjónustuna séu ekki hafnar, greiningarvinna fari nú fram í ráðuneytinu. „Samtalið við greinina svona formlega á eftir að eiga sér stað og ekki hægt að segja til hvenær fyrsta útfærsla á komugjaldinu verði lögð fram. Hún verði ekki tilbúin á þessu ári.“

Þórdís Kolbrún segir mikilvægt að komast að niðurstöðu sem fyrst. „Ég vona að við förum að geta sett punkt aftan við umræðuna um komugjöldin, verkefnið er að komast að niðurstöðu og klára málið.“

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir afar mikilvægt að horfa heildrænt á málið. 

„Við höfum alltaf verið tilbúin til að skoða komugjöld sérílagi yfir háönnina, við erum ennþá að byggja upp vetrarmánuðina en auðvitað eru annmarkar á komugjöldum eins og öðrum gjaldtökuhugmyndum sem hafa verið viðraðar.“

Helga segir að ef gjöldin verði að veruleika sé brýnt að þau fari í uppbyggingu innviða. Við ákvörðunartöku um gjaldtökuna þurfi að horfa til allra þátta. „Menn verða að horfa á stóru myndina, átta sig á hvaða áhrif þessi gjaldtaka hefur hvað varðar samkeppnishæfni og svo framvegis og taka ákvarðanir út frá því.“


Tengdar fréttir

Náttúrupassi óþarfur vegna skattahækkunar á ferðaþjónustu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, segir að ekki sé ástæða til þess að endurnýta hugmyndina um náttúrupassa, meðal annars vegna þess að ríkisstjórnin hyggst færa ferðaþjónustuna í almennt þrep virðisaukaskatts.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.