Innlent

Vill viðhalda stöðvarskyldu leigubílstjóra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Leigubílstjórum líst illa á þær hugmyndir um að opna fyrir óhefta samkeppni á leigubílamarkaði og segja að það grafi undan atvinnuöryggi þeirra. Formaður bifreiðastjórafélagsins Fylkis á Suðurnesjum segir nauðsynlegt að viðhalda stöðvarskyldu bílstjóra til að tryggja öryggi farþega.

Eftirlitsstofnun EFTA telur að ákvæði íslenskra laga um leigubíla brjóti gegn EES-samningunum og er sérstaklega vísað í fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum í þessu samhengi.

Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem lagt er til að þessi fjöldatakmörkun verði afnumin og að íslenskur leigubílamarkaður verði opnaður fyrir aukinni samkeppni.

Vinnuhópur á vegum samgönguráðherra hefur á síðustu mánuðum unnið að tillögum til að bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið. Búist er við því að hópurinn skili niðurstöðu sinni í vor.

Einar Árnason formaður bifreiðastjórafélagsins Fylkis á Suðurnesjum á sæti í þessum starfshóp en hann segist hlynntur því að endurskoða reglur varðandi leigubílarekstur.

„Við erum ekki sáttir en við erum alveg tilbúnir að skoða breytingar. Þetta er allt breytingum háð. ESA er í raun og veru að krefjast þess að það séu ákveðnir hlutir lagaðir. En það sem við höfum aðallega lagt áherslu á er að tryggja öryggi farþega og þar af leiðandi stöðvarskyldu. Ef hún verður tekin af þá verður þetta bara Villta vestrið,“ segir Einar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×