Innlent

Gul viðvörun um allt land

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Hulda Hólmkelsdóttir skrifa
Veðrið nær hámarki seinnipartinn eða í kvöld.
Veðrið nær hámarki seinnipartinn eða í kvöld. Skjáskot

Ný lægð nálgast nú landið með tilheyrandi hvassviðri eða stormi og úrkomu sem getur sett samgöngur úr skorðum þegar líður á daginn.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir búast megi við suðaustan hvassviðri eða stormi undir kvöld á Suður- og Vesturlandi.

„Hlýnar með rigningu á láglendi. Ráðlegt er að huga að því að rigningar- og leysingarvatn komist sína leið í fráveitukerfi til að fyrirbyggja vatnstjón.“

Veðrið nær hámarki seinnipartinn eða í kvöld og ættu ferðalangar að huga vel að veðri og færð áður en lagt er af stað. Teitur Arason er vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Eftir rólegan dag í gær þá er lægð að nálgast landið og hún sendir til okkar skil með stormi,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Þetta er svona ósköp venjulegur vetrarstormur með hláku og ekkert óvenjulegt veður í sjálfu sér en engu að síður getur það haft truflandi áhrif á samfélagið og þá sér í lagi samgöngur.“

Gæti truflað flugsamgöngur
Það getur því borgað sig að fylgjast vel með upplýsingum um færð á vegum, einkum á fjallvegum, á vef vegagerðarinnar.

Vegna mikils hvassviðris um kvöldmatarleytið og þar til um miðnætti kann að vera að flugsamgöngur fari eitthvað úr skorðum en samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA er búist við að vindur fari yfir 50 hnúta um níuleytið. 

Það þýðir að ekki verður hægt að leggja landganga að flugstöðvarbyggingunni á meðan veðrið gengur yfir. 

Flugfarþegar ættu því að fylgjast vel með hugsanlegum töfum en það er ákvörðun hvers flugfélags hvort flugum verði seinkað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.