Innlent

Næringarfræðingur segir umtalaða glæru tekna úr samhengi

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Sæmundsson næringafræðingur hélt fyrirlestur fyrir unga knattspyrnuiðkendur sem hefur vakið talsverða athygli á netinu.
Ólafur Sæmundsson næringafræðingur hélt fyrirlestur fyrir unga knattspyrnuiðkendur sem hefur vakið talsverða athygli á netinu. Ólafur Sæmundsson
Glæra sem Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur við Háskólann í Reykjavík, sýndi á fyrirlestri sem hann hélt fyrir unga knattspyrnuiðkendur í Víkingi í vikunni hefur verið gagnrýnd harðlega en Ólafur segir glæruna hafa verið tekna úr samhengi.

Ólafur var fenginn til að fara yfir með ungum knattspyrnuiðkendum hjá Víkingi hvernig þeir ættu að haga mataræði sínu og lagði hann áherslu á að þeir ættu að tryggja að þeir fengju nóg af prótínum, kolvetnum, fitu, vítamínum og steinefnum úr fæðu yfir daginn.

Ólafur fór yfir það hvernig mataræði sem hentar einum hópi einstaklinga henti ekki endilega öðrum hópum einstaklinga.

Tók hann sem dæmi mataræði sonar síns Sæmundar Ólafssonar, frjálsíþróttamanns, sem þarf að uppfylla mun meiri orkuþörf yfir daginn heldur en meðalmaðurinn. Benti Ólafur á að ef venjulegur maður myndi innbyrða jafn mikið af mat yfir daginn og sonur hans þá myndi sá maður enda í offitu.

Guðni Páll Pálsson, Arnar Pétursson og Sæmundur Ólafsson eftir hlaupahátíð Ármanns í Laugardal árið 2015.Bjarni Már Ólafsson
Ólafur fór síðan yfir með krökkunum hvernig „góður dagur“ liti út fyrir þau þegar kemur að næringu.

Hann afhenti þjálfara hjá Víkingi glærurnar en einhvers staðar í ferlinu fór mynd af matseðli sonar hans í dreifingu og sögð vera ráðlegging Ólafs til krakkanna um það hvað þau ættu að borða yfir daginn.

Á meðal þeirra sem gagnrýndu þessa meintu ráðleggingu Ólafs til knattspyrnuiðkendanna ungu var einkaþjálfarinn Egill Einarsson sem sagði þetta vera dæmi um hvað sumir íslenskir næringarfræðingar eru á villigötum.

Fer reglulega yfir mataræði sonarins

Frá því sonur Ólafs var tíu ára gamall hefur hann á hverju ári beðið son sinn um að skrifa allt það sem hann borðar á einum degi. Um er að ræða handahófskenndan dag þar sem Ólafur hefur ekki lagt honum línurnar og sonurinn fengið að ráða hvað hann vill borða.

Þessi tiltekni dagur sem Ólafur birti á fyrirlestrinum var fyrir þremur árum þegar Sæmundur var nítján ára gamall, 185 sentímetra hár og 71 kíló að þyngd.

Ólafur tekur síðan saman allt það sem sonurinn skrifaði niður, tekur af því myndir og reiknar út orku og næringu sem er í matnum yfir daginn og hvort það uppfylli þörf sonar hans fyrir prótínum, kolvetnum, fitu, vítamínum og steinefnum.

Þessi tiltekni dagur hans uppfyllti öllum þeim þörfum sem íþróttamenn sem æfa jafn öfgakennt og sonur hans gerir, þurfa að uppfylla en þess má gæta að Sæmundur stóð uppi sem sigurvegari í 800 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum um liðna helgi.

Á myndunum er meðal annars farið yfir hvað sonur hans fékk sér í kvöldhressingu þennan tiltekna dag en það var skúffukaka, tvær fernur af kókómjólk, Kellogs-stykki, þrjár mandarínur og eplasafi.

Matseðill sonar Ólafs fyrir þremur árum.Ólafur Sæmundsson
Skúffukaka ekki dæmi um hollustu

Ólafur segir að skúffukakan og kókómjólkin sé alls ekki dæmi um hollustu en geti hjálpað íþróttamönnum sem æfa af mjög miklu kappi að uppfylla orkuþörf sína yfir daginn. Sonur hans er til að mynda hlaupari sem þurfti að þyngja sig á þessum tíma og þurfti því að innbyrða mikla orku. Er það ítrekað að um miklar öfgar er að ræða við æfingar í því tilviki og ef meðalmaður myndi innbyrða jafn mikla fæðu og sonur Ólafs gerði þennan dag í langan tíma myndi hann væntanlega fara í ofþyngd.

„Kökurnar eru ekki ímynd hollustu en heildarmyndin fyrir þennan unga mann miðað við þá öfga sem hann innir af hendi þjálfunarlega séð þá kemur þessi dagur ekki illa út, ekki fyrir hann. En fyrir flesta einstaklinga á hans reki, ef þeir myndu borða svona, þá væru þeir að borða helmingi fleiri hitaeiningar en þeir ráða við, sem myndi leiða til offitu. Það sem ég er að segja að mataræði sem hentar fyrir einn hóp einstakling hentar auðvitað ekki endilega fyrir annan hóp einstaklinga,“ segir Ólafur.

Á glærunum var að finna ráðleggingar til ungra knattspyrnuiðkenda sem að jafnaði brenna um 2.500 hitaeiningar á dag sem fæst með því að æfa í eina og hálfa klukkustund á þeim degi.

Þar innbyrðir knattspyrnuiðkandinn um 680 hitaeiningar um morguninn með því að borða hafragraut, rúsínur, nýmjólk og lýsi klukkan átta og epli og ávaxtasafa klukkan 10. 650 hitaeiningar eru innbyrtar í hádeginum með því að borða kjúklingalasagna með birkibollu, 190 hitaeiningar í miðdegisverði með því að borða Cheerios og mjólk, 285 hitaeiningar eru fengnar úr banana og kókómjólk eftir æfingu, 940 hitaeiningar eru fengnar úr pizzu, brauðstöng og ávaxtasafa í kvöldverð og 130 hitaeiningar eru fengnar úr vínberjum og tómötum í kvöldhressingu.

Hann segir umræðuna í þjóðfélaginu gjarnan snúast um megrun og öfga en það sem Ólafur segist leggja áherslu á er að fólk tryggi að það uppfylli orkuþörf sína og fái öll þau prótín, kolvetni, vítamín og steinefni sem líkaminn þarf yfir daginn.

Glærusýning Ólafs í heild sinni er að finna í viðhengi með fréttinni.

Ólafur Sæmundsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×