Innlent

Fimm handteknir vegna gruns um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Akureyri. Flestir hinna handteknu hafa komið áður við sögu hjá lögreglu ýmist vegna ofbeldismála eða fíkniefnamála.
Frá Akureyri. Flestir hinna handteknu hafa komið áður við sögu hjá lögreglu ýmist vegna ofbeldismála eða fíkniefnamála. vísir/auðunn
Fimm manns voru handteknir á Akureyri í dag vegna gruns um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu í gærdag á rúmlega þrítugum karlmanni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Akureyri en fyrst var greint frá umfangsmiklum lögregluaðgerðum á Akureyri í dag á vef RÚV.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að í aðgerðinni hafi tekið þátt lögreglumenn á Akureyri, Húsavík, Dalví og frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Auk þess voru framkvæmdar húsleitir á nokkrum stöðum og hefur lögreglan á Akureyri notið stuðnings tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við þá vinnu.

 

„Flestir hinna handteknu hafa komið áður við sögu hjá lögreglu ýmist vegna ofbeldismála eða fíkniefnamála. Hinir sömu hafa verið færðir til vistunar í fangageymslur lögreglu, en yfirheyrslur munu standa yfir fram á nótt og verður síðan framhaldið í fyrramálið. Í fyrramálið verður tekið ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum hinna handteknu, slíkt fer eftir framvindu rannsóknarinnar.

Rannsókn málsins er á frumstigi og vegna rannsóknarhagsmuna er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:52.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×