Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ráðið Birgi Jakobsson sem aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu. Birgir mun taka til starfa þann 1. apríl næstkomandi þegar hann lætur af embætti landlæknis.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að Birgir hafi gegnt embætti landlæknis frá 1. janúar 2015. Fyrir þann tíma starfaði hann í Svíþjóð um langt árabil þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum við sjúkrahús þar í landi. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi frá Karolinska Institutet.
Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 var hann forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi þar til hann var skipaður landlæknir.
Svandís segir mikinn feng í að fá Birgi sér til aðstoðar við þau stóru og flóknu verkefni sem heyra undir embætti heilbrigðisráðherra.
Hann hafi viðamikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu, bæði á sviði stjórnunar og stefnumótunar og fagþekking hans sem læknis sé einnig mikilvæg. Sem landlæknir hafi hann öðlast mikilvæga yfirsýn yfir íslenska heilbrigðiskerfið:
„Í Embætti landlæknis hefur Birgir komið fram með skýra sýn á ýmsa þætti sem hann telur mega betur fara í heilbrigðiskerfinu og um mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar sem byggist á samfélagslegri sátt. Áherslur hans falla vel að þeim verkefnum sem ég mun setja á oddinn á komandi misserum og ég hlakka til að vinna með honum,“ segir Svandís í tilkynningu ráðuneytisins.
Með ráðningu Birgis hefur Svandís tvo aðstoðarmenn, hann og Iðunni Garðarsdóttur sem tók til starfa í ráðuneytinu á dögunum.
Birgir Jakobsson aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Tengdar fréttir

Sex umsækjendur um Embætti landlæknis
Heilbrigðisráðherra skipar í embættið til fimm ára í senn.