Innlent

Annar göngumanna kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar

Andri Eysteinsson skrifar
Frá vettvangi í Fnjóskadal.
Frá vettvangi í Fnjóskadal. Landsbjörg
Annar göngumannanna sem slösuðust í Grundarhnjúk í Fnjóskadal hefur verið flutt úr fjallshlíðinni með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa, eins og áður hefur verið greint frá, unnið við erfiðar aðstæður á vettvangi.

Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var lítill gönguhópur á ferð þegar tveir aðilar missa fótana, um er að ræða tvær konur sem runnu niður hlíðina. 

Slæmar aðstæður eru á staðnum, hvass vindur og snjókoma. Björgunarsveitarmenn eru staddir á tveim stöðum í fjallinu, í 700 og 800 metra hæð. Að sögn Lögreglunnar á Akureyri gengu aðgerðir vel miðað við aðstæður.

Önnur kvennanna var flutt með þyrlu á Akureyrarflugvöll og verður flutt til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Unnið er að því að koma hinni konunni niður á þjóðveg en þaðan verður hún flutt með þyrlu á sjúkrahús.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 17:30


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×