Innlent

Slitlag sem lagt var á Suðurlandsveg um liðna helgi ónýtt

Birgir Olgeirsson skrifar
Bílaröð sem myndaðist á Suðurlandsvegi á sunnudag vegna framkvæmdanna.
Bílaröð sem myndaðist á Suðurlandsvegi á sunnudag vegna framkvæmdanna. Aðsend mynd
Slitlag sem lagt var á Suðurlandsveg við Landvegamót um liðna helgi er ónýtt. Er um að ræða tveggja til þriggja kílómetra kafla sitthvoru megin við Landvegamót en slitlagið hefur flagnað upp og mun Vegagerðin rannsaka hvað fór úrskeiðis.

Mikið grjótkast er á veginum þar sem slitlagið flagnar upp. Hafa verið sett upp skilti til að vara ökumenn við því og umferðarhraði dreginn niður.

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri suðursvæðis hjá Vegagerðinni, segir í samtali við Vísi að tjónið sé að öllum líkindum nokkrar milljónir króna. Rannsakað verður hvað fór úrskeiðis en grunur leikur á að eitthvað hafi verið að bindiefnum sem notað var við framkvæmdina.

Hann segir Vegagerðina ætla strax í lagfæringar á þessum kafla sem verður klárað fyrir veturinn.

Malbikunarframkvæmdirnar áttu sér stað um liðna helgi og mynduðust langar biðraðir á svæðinu síðastliðinn sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×