Innlent

Tilraunir til að koma sök á félagann mættu þyngja refsinguna

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari þegar hún flutti málið í héraði.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari þegar hún flutti málið í héraði. Vísir/Vilhelm
Ítrekaðar tilraunir Thomasar Møller Olsen til að koma sök á aðra menn vegna drápsins á Birnu Brjánsdóttur mættu veru ástæður til að þyngja refsingu hans, að mati ríkissaksóknara. Thomas hélt áfram að benda á skipsfélaga sinn þegar málið var tekið fyrir í Landsrétti í dag.

Thomas var dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir að hafa orðið Birnu að bana í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Hann áfrýjaði málinu til Landsréttar og fór munnlegur málflutningur fram þar í dag.

Þegar Thomas bar vitni sagðist hann telja líklegt að Nikolaj Olsen, félagi hans úr áhöfn togarans Polar Nanoq, hafi orðið Birnu að bana. Þrátt fyrir það gerði verjandi hans ekki kröfu um að Nikolaj bæri vitni. Að öðru leyti sagðist Thomas lítið muna eftir nóttina þegar Birna var drepin sökum ölvunar, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, vísaði málsvörn Thomasar hins vegar á bug. Enginn skynsamlegur vafi væri um sekt Thomasar og því bæri Landsrétti að sakfella hann.

Í frétt Mbl.is kemur fram að saksóknarinn hafi talið refsingu Thomasar í héraði síst of þunga. Ásakanir hans á hendur Nikolaj hafi verið haldlausar. Thomas hafi gert allt sem hann gæti til að koma sök á einhvern annan og Landsréttur mætti líta til þess að þyngja refsingu hans með tilliti til þess.

Lögmaður foreldru Birnu setti fram kröfu um 10,5 milljónir króna í miskabætur á mann auk kröfu um útlagðan kostnað vegna útfarar Birnu, á hendur Thomasi.

Þinghaldið hefur dregist fram á kvöld en túlkur hefur þurft að þýða allt sem fram hefur farið yfir á grænlensku fyrir Thomas.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×