Leiðrétting 14.16: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var staðhæft að um 65 brúttótonna bát hefði verið að ræða. Það er kolrangt. Hann er 10,2 brúttótonn. Í skýrslu RNSA kemur fram að réttindi til að stýra 65 brúttótonna bát hafi þurft á bátinn. Þetta leiðréttist hér með.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa skilaði skýrslu um málið fyrir helgi. Þar var þeim tilmælum meðal annars beint til rekstraraðila hjólabátsins að tryggja að skipstjórar hafi tilskilin réttindi til að stýra slíkum farartækjum. Skipstjóri skipsins hafði réttindi til að stjórna skipum að þrjátíu brúttótonnum en þennan dag sigldi hann bát sem krefst réttinda til að stjórna skipum allt að 65 brúttótonnum samkvæmt skráningaskítreini bátsins.
„Skipstjórinn er með pungaprófið. Það eru sömu réttindi og hann hafði á slysdag,“ segir Guðjón Ármannsson, lögmaður fyrirtækisins. Hann sér aðeins um mál fyrirtækisins en fer ekki með mál skipstjórans.
„Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. telur réttindamál skipstjórnarmanna sinna í lögmætu horfi. Þá er stöðugt unnið að því að bæta öryggi gesta þannig að slys sem þetta geti aldrei endurtekið sig,“ segir Guðjón.
Þingfesting er í sakamáli gegn skipstjóranum í Héraðsdómi Austurlands í dag. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt allt að sex ára fangelsi yfir höfði sér.