
Hanna Rósa starfar í Minjasafninu á Akureyri og situr líka í stjórn Jónasarseturs að Hrauni í Öxnadal, sem stendur fyrir hátíðinni á laugardaginn ásamt Menningarfélagi Akureyrar.
„Meginmarkmið Jónasarseturs er að reka Hraun, fæðingarstað Jónasar. Húsið og jörðin voru keypt 2003 og húsið þá tekið í gegn. Nú er búið að merkja nokkrar áhugaverðar gönguleiðir í umhverfi þess. Húsið er leigt út sem fræðimannsíbúð og einnig leigt BHM yfir sumartímann. Það er fjárhagsleg ráðstöfun því þegar hrunið varð hvarf bakhjarl verkefnisins sem var sparisjóðurinn,“ útskýrir Hanna Rósa.
„En við höfum líka staðið fyrir viðburðum á hverju ári, Fífilbrekkuhátíð snemma sumars og upplestri, söng og ýmiss konar dagskrá sem er tileinkuð skáldinu.“
Afmæli Jónasar er vissulega í dag, þá verða Jónasarverðlaunin afhent í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.
„Við vildum að sjálfsögðu ekki trufla þann viðburð og því færðum við okkar hátíðadagskrá yfir á laugardaginn,“ segir Hanna Rósa. „Við verðum í Hamraborg, aðalsal Hofs. Það kostar ekkert inn og ég vona að fólk hreinlega streymi til okkar og nái sér í andlega næringu.“