Innlent

Fjárlög gætu dregist inn í nóttina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. Hann er hér við setningu þingsins í liðinni viku.
Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. Hann er hér við setningu þingsins í liðinni viku. vísir/anton brink
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er tiltölulega bjartsýnn á að takist að ljúka umræðu og samþykkja fjárlög í kvöld. Annars verði fundað aftur á morgun, laugardag.

„Þetta hefur gengið vel, við höfum yfirleitt bara tekið einn dag í einu. Reynt að ná saman um tilhögun fundahaldanna daga í senn ef svo má að orði komast. Fram að þessu hefur það gengið vel.  Það er öllum ljós að það er mikið verk sem hér þarf að vinna á stuttum tíma. Það hefur gengið ágætlega og haldist nokkurn veginn á þeirri áætlun sem við lögðum upp með fyrir jólin.“

Fjárlagafrumvarpið þarf að klárast fyrir áramót og því verður þingfundi framhaldið á morgun ef ekki næst að afgreiða málið í kvöld.

„Við sjáum bara hvað setur. Við reynum og förum inn í kvöldið, jafnvel nóttina ef þess þarf. Ég held að það sé hugur í öllum að klára þetta. Við tökum auðvitað þann tíma sem þarf.“

Hann segir auðvitað ekki æskilegt að frumvarpið sé óklárað á þessum tíma árs þó fordæmi séu fyrir því í hans tíð á þingi. Það eigi ekki að vera fordæmi fyrir einu né neinu.

„Vonandi er þetta í síðasta skiptið í einhver ár þar sem við lendum í svona löguðu, að vera með kosningar seint að hausti sem skapa þessu öllu þröngan tímaramma yfir áramótin.“

Verið er að ljúka umræðu um fjáraukalög þessa stundina og svo tekur við þriðja umræða um fjárlög.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×