Innlent

Hafa yfirheyrt um tíu manns og rannsaka myndefni úr eftirlitsmyndavélum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Átökin áttu sér stað á Austurvelli um klukkan fimm aðfaranótt sunnudagsins 3. desember.
Átökin áttu sér stað á Austurvelli um klukkan fimm aðfaranótt sunnudagsins 3. desember. Vísir/GVA
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn á manndrápsmáli sem rekja má til hnífaárásar við Austurvöll sunnudagsmorguninn 3. desember miði vel. Lögreglan rannsakar nú myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem staðsettar eru við Austurvöll.„Það er öryggismyndavél þarna á vegum borgarinnar og lögreglu og svo er þarna myndavél frá Alþingi sem við höfum fengið að nota myndefni úr auk þess sem við erum að leita eftir því hvort að þarna séu einhverjar fleiri myndavélar sem hafa náð þessu. Þetta myndefni hjálpar okkur að átta okkur á atburðrásinni,“ segir Grímur.Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa stungið tvo Albani með hnífi þennan sunnudagsmorgun. Annar þeirra, Klevis Sula, lést í síðustu viku af sárum sínum en hann var aðeins tvítugur að aldri. Vinur hans sem var með honum var einnig stunginn en slasaðist minna.Grímur segir að um tíu manns hafi verið yfirheyrðir vegna málsins, þar á meðal vinur Klevis sem var með honum umræddan morgun. Rætt var við móður Klevis og bróður hans í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem þau lýstu því að hann hefði ætlað sér að hjálpa manni sem hann sá að var grátandi þegar hann var stunginn.Aðspurður vill Grímur ekki tjá sig um þessa lýsingu fjölskyldu Klevis eða frekar hver aðdragandinn að árásinni var.Maður sem grunaður er í málinu situr í gæsluvarðhaldi eins og áður segir. Það rennur út á föstudaginn og hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort farið verði fram á áframhaldandi varðhald. Þá á Grímur ekki von á því að manninum verði sleppt úr haldi lögreglu áður en varðhaldið rennur út.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.