Tónlist

Komst loks á topplistann eftir 23ja ára bið

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Þvílíkur ferill hjá Mariuh Carey. Hér sést hún fagna með jólasveininum.
Þvílíkur ferill hjá Mariuh Carey. Hér sést hún fagna með jólasveininum. Vísir / Getty Images
Flestir kannast við lagið All I Want for Christmas Is You með söngkonunni Mariuh Carey og er lagið órjúfanlegur partur af jólahaldinu í hugum margra. Það kemur því einhverjum eflaust á óvart að lagið var í fyrsta sinn í ár að ná inn í efstu tíu sætin á vinsældarlistanum Billboard Hot 100.

Lagið situr nú í níunda sæti listans en toppsætið verma þau Ed Sheeran og Beyoncé með lagið Perfect. Þess má geta að All I Want for Christmas Is You er á fjórðu plötu Mariuh, Merry Christmas, sem kom út árið 1994. Hún hefur því beðið eftir því að komast í efstu sæti Billboard Hot 100-listans í 23 ár.

„Þetta er ótrúleg jólagjöf! Sem lagasmiður er það mikill heiður fyrir mig að þetta lag hafi náð inn í efstu tíu sætin á Billboard Hot 100-listanum í fyrsta sinn,“ segir Mariah í samtali við Billboard, gjörsamlega í skýjunum.

„Í sannleika sagt hélt ég að þetta myndi aldrei gerast en ég er svo þakklát öllum sem kunna að meta þetta lag og að það sé partur af jólahefðum margra. Það hlýjar mér um hjartarætur og ég er svo stolt af þessu lagi sem ég samdi sem barn á litla Casio-hljómborðið mitt,“ bætir Mariah við.

Þetta er í 28 sinn sem Mariah nær inn í efstu sæti Billboard Hot 100-listans. Síðast þegar það gerðist var það lagið Obsessed árið 2009 sem nældi sér í sjöunda sætið. Alls hafa átján lög Mariuh náð fyrsta sæti Billboard Hot 100-listans, sem er besti árangur einsöngvara í sögu listans.


Tengdar fréttir

Hvert er besta jólalag allra tíma?

Það er fátt jólalegra en að hlusta á góðan spilunarlista af jólalögum og komast í gott hátíðarskap í leiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×