Innlent

Ráðherrar heilbrigðis- og menntamála í Víglínunni

Þórdís Valsdóttir skrifar

Ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lofar innspýtingu í innviði samfélagsins; í heilbrigðis- og menntamál sem og samgöngur, þar sem uppbygging hefur setið á hakanum eftir hrun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra koma í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20 og svara því hvernig þær hyggjast standa við loforð ríkisstjórnarinnar sem tók við á fimmtudag.

Víst er að stjórnarandstaðan verður ekki sátt við allar aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, þótt stjórnin lofi að efla Alþingi og auka samstarf ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. En stjórnarandstaðan hefur tekið tilboði stjórnarinnar um formennsku í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Formennskan fer til þriggja stærstu flokkanna í stjórnarandstöðu; Samfylkingar, Miðflokks og Pírata.

Þau Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata mæta einnig í Víglínuna til að ræða stjórnarsáttmálann. En báðir þessir flokkar höfnuðu því að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.