Innlent

Íslendingar kaupa vatnsdælur í stórum stíl

Jakob Bjarnar skrifar
Í kjölfar skrifa Guðna Elíssonar hafa vatnsdælur selst sem aldrei fyrr.
Í kjölfar skrifa Guðna Elíssonar hafa vatnsdælur selst sem aldrei fyrr.

„Síðan á laugardaginn hafa selst 22 vatnsdælur í gegnum Sannar gjafir UNICEF, sem er alveg ótrúlegt,“ segir Steinunn Jakobsdóttir kynningarstjóri og upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Steinunn er himinlifandi með þennan kipp sem komið hefur í sölu vatnsdæla, eðlilega og rekur þessa söluaukningu beint til pistils Guðna Elíssonar prófessors, sem birtist á Vísi á laugardaginn.

„Það hefur orðið algert met í sölunni, rosaleg rosaleg viðbrögð og sýnir virkilega hvað við hér á Íslandi látum okkur heilsu og réttindi barna varða og tökum okkur saman til að hjálpa fólki í neyð.“

Steinunn segir að þekktir einstaklingar á borð við Stefán Pálsson og Bergljótu Kristjánsdóttur hafa tekið boltann á loft og safnað sjálf meðal vina sinna á Facebook. Vatnsdælurnar munu gjörbreyta lífi barna sem þurfa á hjálp að halda.

Steinunn Jakobsdóttir hjá UNICEF er harla ánægð með hvernig gengur við vatnsdælusöluna. visir/vilhelm

„UNICEF mun síðan setja upp vatnsdælurnar þar sem þarf á þeim að halda. Á þessu ári hefur UNICEF t.a.m sett upp vatnsdælur í flóttamannabúðum fyrir Rohingja í Bangladess, í afskekktum þorpum í Eþíópíu og við barnaskóla á Indlandi. Ein vatnsdæla getur útvegað heilu þorpi drykkjarvatn og gjörbreytt lífi barna og fjölskyldna á svæðinu,“ segir Steinunn.

Heilnæmt drykkjarvatn er öllum lífsnauðsynlegt og kemur í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.

„Með því að setja vatnsdælu upp í þorpunum er einnig verið að bæta verulega líf kvenna og barna á staðnum. Gönguleið þeirra með þungar vatnsfötur styttist til muna en það að sækja vatn fyrir heimilið lendir oftast á þeirra herðum. Börnum gefst þá meiri tími til skólagöngu, heimanáms – og þess að fá að vera börn og leika sér,“ segir Steinunn, afar kát með mikla sölu í vatnsdælum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.