Innlent

Vara skólastjórnendur í borginni við loftmengun

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar kalt og þurrt er í veðri er líklegra að svifryk myndi mengunarský yfir borginni frekar en að dreifast. Myndin er úr safni.
Þegar kalt og þurrt er í veðri er líklegra að svifryk myndi mengunarský yfir borginni frekar en að dreifast. Myndin er úr safni. Vísir/GVA

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar sendi stjórnendum grunn- og leikskóla auk dagforeldra viðvörun í morgun vegna áframhaldandi loftmengunar í borginni. Styrkur mengunaragna var hár í borginni í gær og er sama ástandi spáð í svölu, þurru og stilltu veðri í dag.

Fólk með öndunarfærasjúkdóma og börn voru vöruð við því að vera á ferð nærri miklum umferðargötum vegna lélegra loftgæða í gær. Þá var styrkur grófs svifryks (PM10) og köfnunarefnisdíoxíðs sagður hár og líklega yfir heilsuverndarmörkum.

Veðuraðstæður eru sagðar hafa stuðlað að því að loftmengunin safnaðist saman yfir borginni í gær. Þegar kalt og stillt veður er ríkjandi eru minni líkur á að loftmengun dreifist. Því geta sjáanleg mengunarský myndast yfir borgum við slíkar aðstæður. Það er vel þekkt frá erlendum borgum eins og Delí á Indlandi þar sem gríðarleg loftmengun hefur mælst í byrjun vetrar.

Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti borgarinnar, segir að sömu veðuraðstæður séu ríkjandi í dag. Tilkynning með sambærilegri viðvörun og send var út í gær hafi því verið send á skólana í morgun.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á vef Reykjavíkurborgar. Þar má jafnframt sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26. Auk þess rekur Umhverfisstofnun loftgæðamæli við Grensásveg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.