Innlent

Tillaga um úthlutun Hljóðritasjóðs samþykkt

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Hæstu styrkina fengu Ólöf Arnalds og Record Records ehf. fyrir aðra breiðskífu Júníus Meyvant.
Hæstu styrkina fengu Ólöf Arnalds og Record Records ehf. fyrir aðra breiðskífu Júníus Meyvant. Vísir/Samsett
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu stjórnar Hljóðritasjóðs um seinni úthlutun úr sjóðnum 2017. Hlutverk sjóðsins er að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist með fjárhagslegum stuðningi við útgáfu hljóðrita.

Alls bárust níutíu umsóknir en þrjátíu og átta verkefni hljóta styrki að þessu sinni. Heildarúthlutunin er 14.850.000 krónur en styrkupphæðirnar eru á bilinu 150.000 til 1.000.000 krónur. Um er að ræða nítján popp- og rokk verkefni, sjö samtímatónlistarverkefni, fimm jazzverkefni og sjö af öðrum meiði.

Hæstu styrkina, upp á eina milljón króna, fengu Ólöf Helga Arnaldsdóttir fyrir verkefnið „Dags dagur“ og Record Records ehf. fyrir aðra breiðskífu Júníus Meyvant. Einnig má nefna að tónlistarkonan Hera Hjartardóttir fékk styrk upp á 650.000 fyrir verkefni sem snýr að nýrri plötu og hljómsveitin Árstíðir fékk styrk upp á 600.000 fyrir þeirra fimmtu breiðskífu.

Hluti umsækjanda fékk röng svarbréf

Starfsmenn sjóðsins gerðu mistök við úrvinnslu niðurstaðna og fékk hluti umsækjanda röng svarbréf í lok októbermánaðar. Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að afturkalla öll svarbréfin þar sem þau voru ekki í samræmi við niðurstöður stjórnar Hljóðritasjóðs og í framhaldinu staðfesti hann tillögu hennar.

Á vef Rannís kemur fram að farið verði yfir verkferla til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×