Innlent

Segir Helga Hrafn kæfa þingmenn í endalausum fyrirspurnum um ekki neitt

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Brynjar telur það augljóst að Helgi viti ekki hvað felst í formennsku í þingnefndum
Brynjar telur það augljóst að Helgi viti ekki hvað felst í formennsku í þingnefndum Vísir/Anton Brink
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Helga Hrafn meta framlag þingmanna eftir því hvað lagðar eru margar vitlausar fyrirspurnir og þingsályktanir fyrir þingið. Þetta segir hann í svari við ummælum sem Helgi Hrafn lét falla fyrr í kvöld.

Brynjar hafði áður tekið undir orð Björns Bjarnasonar um að Píratar hafi aldrei látið reyna á nein málefni, hvorki í kosningabaráttunni né í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Helgi svaraði Brynjari í kvöld og benti á að engin mál væru með hans nafni á Alþingi á kjörtímabilinu 2013 – 2016. „Það vill nefnilega svo merkilega til að á því tímabili sem þú tekur undir með Birni Bjarnasyni að Píratar hafi verið skoðana- og iðjulausir þá lagðirðu sjálfur ekki eitt einasta þingmál fram undir eigin nafni. Ekki eitt frumvarp, ekki eina þingsályktunartillögu, ekki svo mikið sem skriflega fyrirspurn til ráðherra. Ekkert. Það eru núll mál með þínu nafni á Alþingi á kjörtímabilinu 2013-2016, Brynjar,“ skrifaði Helgi Hrafn.

Brynjar segir Helga greinilega aldrei hafa starfað í stjórnarmeirihluta

Brynjar segir að Helgi sé viðkvæmur fyrir því að hann skyldi deila pistli Björn Bjarnasonar um slæleg vinnubrögð Pírata á þinginu, lítið framlag í nefndarstörfum og afstöðuleysi þeirra til þingmála. „Helgi metur framlag þingmanna eftir því hvað lögð eru margar vitlausar fyrirspurnir og þingsályktanir fyrir þingið. Hann hefur greinilega aldrei starfað í stjórnarmeirihluta og veit ekki hvað felst í formennsku í þingnefndum,“ skrifar Brynjar.

Þá segist Brynjar hafa eitt ráð til Helga. „Ég hef bara eitt ráð til Helga. Kynntu þér málin sem eru til meðferðar og taktu afstöðu til þeirra áður en þú kæfir okkur hin í endalausum fyrirspurnum um ekki neitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×