Innlent

Spóluhnýðissýking herjar á íslenska tómata

Jakob Bjarnar skrifar
Veirungurinn er hvorki skaðlegur mönnum né dýrum en leggst á kartöflur og tómata og getur valdið afföllum í ræktun.
Veirungurinn er hvorki skaðlegur mönnum né dýrum en leggst á kartöflur og tómata og getur valdið afföllum í ræktun.
Matvælastofnun hefur gefið út viðvörun um plöntusjúkdóm sem greinst hefur í tómatarækt á Íslandi. Frá þessu greinir á stjórnarráðsvefnum.

Um er að ræða sjúkdóm sem nefnis Potato spindle tuber viroid eða spóluhnýðissýkingu. Þetta er veirungur sem er hvorki skaðlegur mönnum né dýrum en leggst á kartöflur og tómata og getur valdið afföllum í ræktun. „Þetta er önnur veiran sem greinist í tómatarækt á innan við mánuði en í upphafi mánaðarins greindist Pepino mósaík vírus,“ segir í tilkynningunni.

Einkennin geta verið mismunandi og fer alvarleikinn eftir sýkingarafbrigði. Stundum eru engin einkenni en þeirra verður yfirleitt fyrst vart í efri hluta plöntu „þar sem lauf verða gulleit með brúnleitum flekkjum á meðan stærri æðar plöntunnar haldast skærgrænar. Vöxtur laufblaða getur einnig verið takmarkaður. Einkenni geta líka birst á ávöxtum en sýktir ávextir geta verið litlir, dökkgrænir, harðir og vöxtur afbrigðilegur.“

Matvælastofnun beinir því til kartöfluræktenda að gæta að mögulegu krosssmiti frá einstaklingum og aðföngum sem borið gætu smit úr tómatrækt. Og eru þeir sem verða varir við sýkingu að tilkynna stofnunni strax um slík tilvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×