Innlent

Sigrún og Almar þakka stuðninginn: „Undanfarnir dagar hafa verið afskaplega dýrmætir“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Í síðustu viku stigu Sigrún og Almar fram og sögðu frá einelti sem dóttir þeirra hafði orðið fyrir á Húsavík í átta ár.
Í síðustu viku stigu Sigrún og Almar fram og sögðu frá einelti sem dóttir þeirra hafði orðið fyrir á Húsavík í átta ár. Skjáskot/Stöð2
„Undanfarnir dagar hafa verið afskaplega dýrmætir. Við höfum fengið í skilaboðum og samtölum mikinn stuðning, bæði frá nær samfélaginu og víðar sem okkur þykir óendanlega vænt um,“ segja þau Sigrún Birna Árnadóttir og Almar Eggertsson.  Í síðustu viku stigu þau fram og sögðu frá einelti sem dóttir þeirra hafði orðið fyrir á Húsavík í átta ár. Þau skrifuðu einlægan pistil í kvöld sem fjallað er um hér með góðfúslegu leyfi fjölskyldunnar.

Þykir vænt um Húsavík

„Mörgum í samfélaginu finnst ósanngjarnt hvernig fréttaflutningurinn var og að þeim fannst verið að kenna öllum um,“ segir Sigrún í samtali við Vísi um ástæðu þess að þau skrifuðu þennan pistil til bæjarbúa. Í viðtali við Stöð 2 þann 4. nóvember sagði Sigrún að þær mæðgur hafi orðið fyrir aðkasti eftir að hún setti grein um eineltið á Facebook og fjallaði hafði verið um málið hér á Vísi. Í pistli þeirra segir meðal annars:

„Það kann hins vegar að vera að einhverjir í nærsamfélaginu taka umræðuna inn á sig og líta á hana sem einhverskonar árás. Í raun er það óhjákvæmilegt. Ef það hefur gerst, þykir okkur það raunverulega og afskaplega leitt.  Sannleikurinn er sá, að við erum sjálf á stað tilfinningalega sem við þekkjum lítið. Rótin og ástæða þess að við komum með þessa frásögn er vegna þess að við elskum dóttur okkar og við viljum allt gera til þess að henni líði betur.“

Sigrún og Almar segja að þeim þyki samt vænt um Húsavík og samfélagið þar.

Trúa á það góða í fólki

„Það er engin tilfinning verri en að vita af vanlíðan eigin barns og vita ekki hvernig hægt er að gera hlutina betri. Allir foreldrar þekkja þessa tilfinningu. Allir foreldrar hafa setið með litlu stelpuna sína eða strák sem líður illa, strokið vanga, þerrað tárin og sagt; þetta verður allt saman í lagi. Ímyndið nú að það sé ekki svo, að þið vitið ekki hvort allt verði í lagi. Það er raunveruleikinn okkar,“ skrifa Sigrún og Almar í pistli sínum.

Þau segjast ekki hafa komið fram með frásögn sína til að laga ástandið eða líðan heldur vegna örvæntingar en 16 ára dóttir þeirra reyndi sjálfsvíg vegna eineltisins. Þau segja öllum mikilvægt að hægt sé að ræða saman um framtíðina án þess að dæma.

„Örvænting við hlutum sem við höfum enga stjórn á. Við erum hrædd fyrir barnið okkar og framtíð hennar.  Við trúum hins vegar á það góða í fólki, við vitum að flest fólk vill gera gott. Það er haldreipið okkar. Það eru gildin sem við vitum að þið þekkið í vinum ykkar og nágrönnum. Og þau gildi sem við vonum innilega að þið sækið í, þrátt fyrir allt. Að geta sett sig í spor annarra er mikilvægt gildi, að hafa samkennd fyrir þeim sem líður illa er mikilvægt gildi, að fyrirgefa er mikilvægt gildi.“

 

Góð tilfinning að vita að þetta gæti hjálpað öðrum fjölskyldum

Í samtali við Vísi segir Sigrún að síðan fjallað var um mál fjölskyldunnar á Vísi 2. nóvember hafi margir sýnt þeim mikinn stuðning og einhverjir gerendur beðið dóttur hennar afsökunar. Henni hafi einnig verið boðið í partý og á rúntinn. 

„Ég átti svo yndislegt augnablik á eineltissamkomunni „Þú skiptir máli“ hér á Húsavík í dag. Þar kom fullt af fólki og tók utan um mig og sagðist styðja okkur í þessu og að við værum pottþétt búin að hjálpa fullt af fólki í sömu stöðu. Það var svo góð tilfinning. Ef dóttur okkar fer að líða betur og fær séns hérna í samfélaginu frá unga fólkinu hérna, þá er okkar markmiði náð. Það er svo bónus ef þetta allt saman sem á undan hefur gengið hjálpar öðrum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×