Innlent

Líður sumpart eins og sigurvegara

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Björt Ólafsdóttir segir að Björt framtíð hafi snúið við stóriðjustefnunni.
Björt Ólafsdóttir segir að Björt framtíð hafi snúið við stóriðjustefnunni. Vísir/Anton

Björt Ólafsdóttir, fráfarandi umhverfis- og auðlindaráðherra, segir það vera skrýtið að tapa en að henni líði sumpart eins og sigurvegara.

„Björt Framtíð var stofnuð til þess að breyta stjórnmálunum. Breyta vinnubrögðum og málflutningi. Vonandi hefur okkur tekist það, og næst þegar erfið mál á við það sem sprengdi ríkisstjórnina kemur upp verður þeim ekki sópað undir teppið því þau eru valdhöfum erfið,“ segir Björt í færslu á Facebook síðu sinni.

Bakkar ekki frá því að það var góð ákvörðun að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn
Björt segir jafnframt að hún bakki ekki frá því að það hafi verið góð ákvörðun að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. „Sumir spyrja mig hvort að úrslit kosninganna séu ekki viðbrögð fólks við því að við fórum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Það má vera, en ég bakka ekki frá því að það var góð ákvörðun,“ segir hún.

Nefnir hún að þau hafi skrifað stærsta umhverfis og náttúruverndarkafla sem um getur í stjórnarsáttmála ríkisstjórna á Íslandi, að þau hafi stigið fyrsta skrefið í átt að Miðhálendisþjóðgarði og að þau hafi snúið við stóriðjustefnunni.

„Ýmsum fannst sá málflutningur minn í aðdraganda kosninga 2016 í besta falli útópískur. En maður hefur áhrif ef hugmyndir eru stórar og þor er til þess að fylgja þeim eftir. Björt Framtíð er lítill flokkur með fáum stofnunum, en fólkið þar bakkaði mig upp í því að setja þessi mál á oddinn,“ segir hún.

Naflaskoðun hjá Bjartri framtíð og samvera með fjöldskyldunni tekur við
Björt segir að ákveðin nafnaskoðun hjá Bjartri framtíð taki örugglega við en að hún ætli að njóta samveru með fjölskyldunni. „Sjálf ætla ég líka bara að leyfa mér að njóta þess um stund í það minnsta að þakka fyrir það sem ég á. Njóta samveru með krökkunum mínum og besta eiginmanni veraldar. Það er gaman í pólitík, en þrátt fyrir það sem menn segja um kjör og annað, þá fylgir atinu ekki mikil lífsgæði í þeim skilningi að geta sett fjölskylduna og vini í fyrsta sætið. Ég hef saknað þess mikið og ætla núna að gera það,“ skrifar Björt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.