Innlent

Segir að taka verði gagnrýni ÖSE í lögbannsmálinu alvarlega

Höskuldur Kári Schram skrifar

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir að taka verði gagnrýni Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu á stöðu fjölmiðla hér á landi alvarlega. Stofnunin telur að lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum Glitnis banka grafi undan frelsi fjölmiðla og rétti almennings til upplýsinga.

Embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu féllst á mánudag á lögbannsbeiðni eignarhaldsfélagsins Glitnir Holdco á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnin var upp úr gögnum um fyrrverandi viðskiptavini Glitnis banka. Þar á meðal var fjallað um fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokks í aðdraganda bankahrunsins.

Fjölmargir hafa gagnrýnt þetta bann þar á meðal lögfræðingar og stjórn Blaðamannafélags Íslands. Í dag bættist fulltrúi ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í hópinn en hann telur að bannið grafi undan frelsi fjölmiðla hér á landi og rétti almennings til upplýsinga. Hvatti hann íslenska ráðamenn til að beita sér í málinu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætlar að funda um málið á morgun en Jón Steindór Valdimarsson, formaður nefndarinnar, segir að taka verði gagnrýni ÖSE alvarlega.

„Það er ekki gott þegar alþjóðlegar stofnanir sem fylgjast með framkvæmd kosninga og fjölmiðlun gera athugasemdir við þennan framgang. Það er alvarlegt mál og að sjálfsögðu eigum við að taka það alvarlega,“ segir Jón Steindór Valdimarsson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Glitnir Holdco hefur frest fram á mánudag til að leggja fram stefnu í málinu. Ingólfur Hauksson forstjóri eignarhaldsfélagsins sagði í samtali við fréttastofu í dag að það standi ekki til að falla frá málinu. Hann segir að lögmenn á vegum Glitnis hafi líka verið í samskiptum við breska dagblaðið Guardian sem einnig hefur birt fréttir af málinu. Ekki hafi þó verið lögð fram formlega krafa um lögbann þar í landi.

Jon Henley blaðamaður hjá Guardian sagði í samtali við fréttastofu í dag að blaðið hafi ekki tekið neina ákvörðun um hvort það muni halda áfram að fjalla um þetta mál. Það muni skýrast síðar.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.