Lífið

Atskák hugans

Stefán Pálsson skrifar
Myndskreytingar úr þýskri útgáfu Manntafls
Myndskreytingar úr þýskri útgáfu Manntafls

Þann 22. febrúar árið 1942 sviptu rithöfundurinn Stefan Zweig og kona hans Lotte Altmann sig lífi á heimili sínu í Brasilíu. Þangað höfðu þau flust einu og hálfu ári fyrr, landflótta undan uppgangi þýskra nasista sem innlimað höfðu heimaland skáldsins, Austurríki. Zweig fylgdist úr fjarska með Evrópu brenna í átökum seinni heimsstyrjaldarinnar og sökk sífellt dýpra í þunglyndi sem að lokum leiddi til þessa óyndisúrræðis.
Frægðarsól Stefans Zweig reis hæst á þriðja og fjórða áratugnum. Á þeim árum sendi hann frá sér ævisögur nokkurra stórmenna úr mannkynssögunni, sem nutu gríðarlegra vinsælda víða um lönd. Í seinni tíð er hans þó einkum minnst fyrir endurminningabók sína „Veröld sem var“ og nokkrar sögur sem liggja einhvers staðar á milli þess að vera stuttar skáldsögur og langar smásögur. Kunnust þeirra er sagan Schachnovelle frá árinu 1941, sem hlaut nafnið Manntafl í íslenskri útgáfu Þórarins Guðnasonar árið 1951.
Manntafl fjallar um nasisma og verður vart lesin öðruvísi en í ljósi persónulegrar reynslu höfundarins. Sagan hefst um borð í farþegaskipi á leið til Buenos Aires. Meðal farþega er oflátungurinn Czentovic, heimsmeistari í skák. Vellríkir ferðafélagarnir vilja ólmir spreyta sig gegn meistaranum, sem lætur til leiðast gegn vænni þóknun. Skákmeistarinn á ekki í neinum vandræðum með andstæðinga sína, þar til dularfullur farþegi blandar sér í leikinn og kemur öllum á óvart með skáksnilld sinni og leiftursnöggum leikjum.

Í einangrun
Skákmaðurinn slyngi, sem aldrei er kallaður annað er Dr. B, segir einum ferðafélaganum sögu sína. Hann hafði verið stuðningsmaður austurrísk-ungverska keisaraveldisins og því tekinn höndum af Gestapo þegar Austurríki var innlimað í Þriðja ríkið. Við tók margra mánaða einangrunarvist, þar sem Dr. B var lokaður inni í galtómum fangaklefa milli yfirheyrslna. Eftir nokkurra mánaða innilokun tókst honum að stela bók úr vasa eins fangavarðanna. Það reyndist vera rit með frægum skákum úr sögunni.
Til að halda sönsum í einangruninni drekkur fanginn í sig efni bókarinnar og innan skamms kann hann sérhverja skák hennar utanbókar. Því næst fer hann að tefla í huganum við sjálfan sig í sífellu. Að lokum breytist skákin í hreina þráhyggju, þar sem fanginn hugsar ekki um annað en skák í vöku sem draumi, uns hann fær taugaáfall og er sendur á spítala, þaðan sem hann losnar úr fangavistinni.

Viðmælandinn hlustar dolfallinn á sögu Dr. B, en sannfærir hann um að etja á nýjan leik kappi við heimsmeistarann hrokafulla. Þeir Czentovic setjast að tafli. Dr. B leikur sérhvern leik hratt og fumlaust, en verður óþreyjufullur eftir því sem lengra líður á milli leikja meistarans, enda sér hann ótal leiki fram í tímann. Czentovic skynjar óþolinmæði mótherjans og tekur að draga skákina á langinn. Austurríkismaðurinn verður að lokum gjörsamlega viðþolslaus, hættir að greina á milli stöðunnar á taflborðinu og stjórnlausra upprifjana sinna á gömlum skákum. Hann missir stjórn á sér og verður að lokum að játa sig sigraðan.

Söguþráður Manntafls er sterkur og grípandi, enda er sagan oft talin besta verk Zweig. Manntafl hefur verið sett á svið víða um lönd og má þar nefna eftirminnilega uppsetningu þess í Borgarleikhúsinu fyrir rúmum áratug, þar sem Þór Tulinius lék öll hlutverk. Í tengslum við þá sýningu var rifjuð upp vinsæl tilgáta um tengingu sögunnar við Ísland.

Árið 1964 komu út endurminningar landkönnuðarins Vilhjálms Stefánssonar, sem þá var nýlega látinn. Glöggir lesendur hnutu um atriði í frásögn Vilhjálms sem minntu á fléttuna í Manntafli og það svo mjög að jafnvel væri ekki um tilviljun að ræða. Kenning þessi gekk manna á milli í Reykjavík næstu árin, en vakti fyrst verulega athygli þegar Gylfi Gröndal sendi frá sér viðtalsbók árið 1981, þar sem Jón Ólafsson hæstaréttarlögmaður greindi frá henni og jók við frásögn Vilhjálms Stefánssonar fleiri upplýsingum um lífshlaup frænda síns Björns Pálssonar Kalmans.

Eftirsótt undrabarn
Björn, sem tók upp Kalmans-nafnið á fullorðinsárum, var sonur Páls Ólafssonar, skáldsins ástsæla, en Páll var hálfsjötugur þegar Björn fæddist árið 1883. Björn gekk í Latínuskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan vorið 1904. Þar fékk hann áhuga á skák og tók skjótum framförum. Útskriftarvorið tefldi hann við erlendan ferðalang, William Ewart Napier að nafni og hafði betur. Napier þessi var þá einna kunnastur skákmanna vestanhafs og á leið til Bretlands, þar sem hann sigraði einmitt á fyrsta Breska meistaramótinu í skák, sem haldið var þá um sumarið.
Fregnin af óþekkta skólapiltinum sem lagði stórmeistarann barst vitaskuld víða og þar á meðal til rektors Harvard-háskóla, Nathaniels Shaler. Sá var mikill skákáhugamaður og hafði mikinn hug á að gera Harvard að stórveldi á skáksviðinu. Þegar Vilhjálmur Stefánsson hélt á fund Shalers­ til að afla fjárstuðnings fyrir vísindaleiðangur til Íslands, kviknaði því sú hugmynd að slá tvær flugur í einu höggi: Vilhjálmur fengi styrkinn en í staðinn tæki hann að sér að lokka Íslendinginn unga vestur um haf gegn loforði um skólastyrk og farareyri. Reyndist skákáhugi rektorsins afdrifaríkur fyrir fræðimannsferil Vilhjálms Stefánssonar, sem hóf í kjölfarið að beina athygli sinni að norðurslóðum í rannsóknum sínum í stað hitabeltisins sem flestir mannfræðingar voru uppteknir af.

Þegar hér var komið sögu hafði Björn Pálsson innritast í verkfræði við Kaupmannahafnarháskóla, en féllst þó skjótt á að taka gylliboðinu frá Harvard. Sigldu þeir Vilhjálmur saman yfir Atlantshafið, en á leiðinni mun Björn hafa teflt við tvo sterka skákmenn og sigrað fyrirhafnarlítið.
Þegar til Harvard var komið reið áfallið yfir. Skákmenn við skólann voru lítt hrifnir af áformum Shalers­ rektors og töldu ástæðulaust að styrkja liðið með einhverjum lukku­riddara ofan frá Íslandi. Þeir lögðust yfir reglur og komust að þeirri niðurstöðu að þar sem Björn hafði verið skráður nemandi við annan háskóla, gæti hann ekki orðið löglegur keppandi fyrir hönd Harvard fyrr en að ári liðnu.

Sem vænta mátti féll unga manninum þetta afar þungt. Hann taldi sig illa svikinn og gat ekki hugsað sér að setjast á skólabekk þar sem hann væri ekki velkominn. Þess í stað hélt hann á Íslendingaslóðir í Kanada og vann fyrir sér með ýmsum hætti, bæði við blaðamennsku og verkamannavinnu. Síðar flutti Björn aftur heim til Íslands, þar sem hann varð sér úti um lögmannsréttindi og starfaði sem slíkur.
Eftir höfnunina í Harvard lagði Björn taflmennskuna að mestu á hilluna og töldu flestir að ástæðan væri hin miklu vonbrigði með lyktir mála varðandi skákliðið. Í æviminningum sínum sagði Vilhjálmur Stefánsson þó að fleira hefði búið að baki. Björn hafi játað fyrir sér að hann hefði áhyggjur af geðheilsu sinni, þar sem hann myndi hverja einustu skák sem hann hefði teflt. Skákirnar hrúguðust þannig upp í kolli hans og leituðu sífellt meira á allar hugsanir. Hafði Björn lesið sér nokkuð til um sálfræði og taldi þetta vísbendingu um að honum væri hætt við að missa vitið.

Björn stóð að mestu við þessa ákvörðun sína að koma ekki aftur nálægt skák og lét íþróttina sig litlu varða eftir að til Íslands kom. Einhverjar sögur gengu meðal Reykvíkinga um gömul skákafrek kappans, en hann gaf aldrei neitt út á það. Þannig fylgdi frásögn Jóns Ólafssonar að dóttir Björns hafi fyrst heyrt af skákafrekum föður síns að honum látnum, þegar æviminningar Vilhjálms Stefánssonar komu út.
Fyrirmynd eða tilviljun?
Þegar frásögn Vilhjálms er lesin ásamt viðbótum Jóns Ólafssonar, er ekki erfitt að sjá líkindin við einstaka þætti í sögunni Manntafli. Í báðum tilvikum kemur óþekktur skákmaður kunnum stórmeistara í opna skjöldu og ferð í farþegaskipi kemur við sögu. Lykilatriðið er þó augljóslega að í báðum frásögnum snýr afburðasnjall skákmaður baki við íþrótt sinni af ótta við að skákþráhyggjan leiði hann til sturlunar.
Skömmu eftir útgáfu bókar Gylfa Gröndal birti sagnfræðingurinn og skákáhugamaðurinn Garðar Sverrisson langa grein í Lesbók Morgunblaðsins um sama efni og annar skákforkólfur, Guðmundur G. Þórarinsson, hefur skrifað í sömu veru. Niðurstaða þeirra beggja er sú að Stefan Zweig hafi líklega haft örlög Björns Ólafssonar í huga þegar hann ritaði Manntafl.

Á hitt ber þó að líta að líkindin ná ekki nema til takmarkaðra þátta. Saga Zweigs fjallar í raun ekki nema að nokkru leyti um skák, en þeim mun fremur um nasisma og sálfræðilegar afleiðingar einangrunarvistar.
Erfitt er einnig að sjá hvaðan Zweig hefði átt að fá hinar nákvæmu upplýsingar um lífshlaup Björns. Stuðningsmenn kenningarinnar benda á að Zweig hafi ferðast um Bandaríkin 1913-14 og dvalið við nokkra háskóla, þar á meðal Harvard. Jón Ólafsson stingur jafnvel upp á að Vilhjálmur og Zweig gætu hafa kynnst.
En þá ber á það að líta að saga Björns var flestum hulin, þar til æviminningar Vilhjálms Stefánssonar komu út. Shaler rektor var látinn veturinn 1913-14, ólíklegt verður að telja að Vilhjálmur hefði ekki getið um kunningsskap við heimskunnan rithöfund í æviminningum og fráleitt að hann hafi sleppt að geta um meint tengsl sögu Bjarnar við Manntafl, hvað þá ef hann var heimildarmaðurinn. Rökréttast er því að líta á líkindin með sögunum tveimur sem hreina tilviljun, þótt vissulega séu rökréttustu skýringarnar sjaldnast þær skemmtilegustu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.