Innlent

Segir ekki mikið annað í stöðunni en að boða til kosninga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Birgitta á leið á þingflokksfundi Pírata í morgun.
Birgitta á leið á þingflokksfundi Pírata í morgun. vísir/anton brink
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segist ekki sjá mikið annað í stöðunni en að boða til þingkosninga. Það er því komið annað hljóð í Pírata en var í morgun þegar þeir lýstu því yfir að þeir myndu frekar vilja mynda nýja ríkisstjórn en boða til kosninga.

Heimir Már Pétursson ræddi við Birgittu í beinni útsendingu í hádegisfréttatíma Stöðvar 2. Þar sagðist hún ekki sjá mikla möguleika á því að mynda starfhæfa ríkisstjórn þó að ef til vill væri hægt að mynda minnihlutastjórn. Það væri þó snúið og Íslendingar hefðu enga reynslu af slíkri stjórn.



Sjá einnig:
Pírata vilja samþykkja nýja stjórnarskrá áður en þing verður rofið

Viðreisn og Vinstri grænir hafa einnig lýst því yfir að það eigi að kjósa og telur Birgitta að meirihluti sé fyrir því í þinginu að boða til kosninga. Á meðan gæti starfsstjórn farið með stjórn landsins en Birgitta sagði að vondur bragur væri á því ef Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndi leiða slíka stjórn.

Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti með afgerandi meirihluta að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í gærkvöldi vegna trúnaðarbrests. Í framhaldinu lýsti Viðreisn því yfir að loknum fundi sínum að réttast væri að boða til kosninga í ljósi stöðunnar sem væri komin upp.

Trúnaðarbresturinn sem Björt framtíð vísar til snýr að því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra greindi Bjarna frá því í júlí að faðir hans, Benedikt Sveinsson, væri á meðal umsagnaraðila eins þeirra 32 sem hefðu fengið uppreist æru frá árinu 1995. Mánuði fyrr hafði dómsmálaráðherra neitað fjölmiðlum um aðgang að gögnum í einu slíku máli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×