Innlent

Sölubann á þyrilsnældur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vonandi voru umbúðir þessarar þyrilsnældu vel merktar.
Vonandi voru umbúðir þessarar þyrilsnældu vel merktar. Nordicphotos/Getty
Neytendastofa greindi frá því í gær að hún hefði sett sölubann á þyrilsnældur (e. fidget spinner) hjá Hagkaupi vegna þess að „ekki var sýnt fram á öryggi vörunnar og að hún væri í samræmi við gildandi lög og reglugerðir“.

Í niðurstöðum ákvörðunar Neytendastofu kemur fram að við skoðun á snældum sem Hagkaup flutti inn hafi komið í ljós að engin CE-merking var á umbúðum þeirra. Þá kom engin aldursviðvörun né viðvörun um köfnunarhættu fram á umbúðunum.

Þann 1. júní síðastliðinn lagði Neytendastofa tímabundið bann við sölu þyrilsnælda frá þremur innflytjendum og framlengdi það bann síðan um fjórar vikur, eða þar til lagfæringar yrðu gerðar. 12. júlí hafði starfsmaður Hagkaups síðan samband við Neytendastofu og sagði að fyrirtækið hefði tekið snældurnar úr sölu.

Nú hefur Neytendastofa hins vegar sett ótímabundið sölubann á þyrilsnældur sem Hagkaup flutti inn. Er Hagkaupi jafnframt gert að eyða öllum eintökum vörunnar sem enn kunna að vera til á lager og afhenda Neytendastofu staðfestingu þess efnis innan þrjátíu daga frá því að ákvörðunin var birt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×