Innlent

Flytja H&M skiltið af Lækjartorgi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá flutningnunum á Lækjartorgi um tvöleytið í dag.
Frá flutningnunum á Lækjartorgi um tvöleytið í dag. Vísir/Vilhelm

Risavaxið auglýsingaskilti í formi innkaupapoka sem auglýsir opnun verslunar H&M um helgina var fjarlægt af Lækjartorgi eftir hádegið.

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, segir að með þessu sé verið að bregðast við þeirri gagnrýni sem auglýsingin hafi fengið. Skiltið verður flutt í Smáralind.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófesssor í íslenskri málfræði. Vísir/Valli

Óhætt er að segja að skiltið hafi vaktið mikla athygli en því var komið fyrir á Lækjartorgi á mánudagsmorgun. Tilskilin leyfi höfðu fengist hjá borginni fyrir uppsetningunni og átti skiltið að fá að standa á torginu út mánuðinn.

„Það kom mikil gagnrýni á þessa uppstillingu og við brugðumst því við með þessum hætti,“ segir Hjalti í samtali við Vísi. Gagnrýnin hefur komið fram á samfélagsmiðlum og vakti gagnrýni Eiríks Rögnvaldsson íslenskufræðings nokkra athygli.

Borgin ekki stikkfrí

„Enskan flæðir alls staðar yfir án þess að nokkur geri nokkuð í því og það veikir varnir íslenskunnar,“ sagði Eiríkur í færslu á Facebook í morgun. Þar færði hann rök fyrir því að Reykjavíkurborg bryti lög með því að leyfa pokanum að standa.

Í ákvæði laga nr. 57/2005 segir að auglýsingar sem höfða eigi til íslenskra neytenda skuli vera á íslenskri tungu og segir Eiríkur augljóst að pokinn sé ætlaður íslenskum viðskiptavinum verslunarinnar. Borgin geti ekki þóst vera stikkfrí.

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg

„Borgin telur það greinilega ekki hlutverk sitt að sjá til þess að lög séu virt að þessu leyti,“ sagði Eiríkur og bætti því við að Neytendastofa hefði ekki svarað fyrirspurn han um hvað stofnunin geri til framfylgja lagaskyldu sinni í þessu efni. 

Skiltið fer í Smáralind
Skiltið verður flutt í Smáralind þar sem H&M verður opnuð á laugardaginn.

„Það sem við erum að gera núna er heildarendurskoðun á verkferlum varðandi veitingu leyfa,“ segir Hjalti um stöðu mála hjá borginni.

Aðspurður hvað fulltrúum H&M hafi fundist um þessa ákvörðun borgarinnar að flytja skiltið af Lækjartorgi segir Hjalti að fulltrúarnir verði að svara því.

Uppfært klukkan 16:02
Reykjavíkurborg hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins.

Auglýsingin á Lækjartorgi hefði þurft frekari umfjöllun

Mistök voru gerð milli skrifstofa hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þegar veitt var leyfi fyrir H&M auglýsingu á Lækjargötu. Málið hefði þurft frekari umfjöllun þar sem um álitaefni er að ræða. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. Hvorki er við birtingaraðila né H&M að sakast í þessu máli. Skiltið verður fjarlægt af Lækjartorgi í dag. Reykjavíkurborg hefur átt mjög gott samstarf við H&M eftir að mistökin voru ljós og vinnur H&M nú að því að finna nýja staðsetningu fyrir auglýsinguna.

Unnið er að endurskoðun á ferlum og bættu verklagi í samræmi við reglur um afnot af borgarlandi vegna skilta og útstillinga, m.a. með innleiðingu á öflugu leyfiskerfi.

H&M

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.