Theodóra, sem greindi frá yfirvofandi brotthvarfi sínu af þingi í Kópavogsblaðinu um helgina, ætlar að einbeita sér að sveitarstjórnarmálum í Kópavogi þar sem hún er einnig kjörinn bæjarfulltrúi. Þrátt fyrir að hún verði aðeins búin að vera þingmaður í rúmt ár þegar hún hættir mun hún engu að síður eiga rétt á biðlaunum til þriggja mánaða upp á 1.101.195 krónur á mánuði.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, staðfestir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að kjörnir þingmenn þurfi ekki að uppfylla nein sérstök skilyrði til að eiga rétt á biðlaunum. Því skiptir engu máli hversu lengi eða stutt þeir hafa setið en þeir sem hafa setið tvö kjörtímabil eða lengur eiga rétt á biðlaunum í sex mánuði.
„Sérhver þingmaður, sem hættir þingmennsku, á rétt samkvæmt lögunum, af hvaða ástæðum sem hann hættir; sjálfviljugur, tilknúinn eða hefur ekki lengur kjörfylgi,“ segir í svari Helga.
Í samtali við Fréttablaðið kveðst Theodóra ekki hafa vitað af þessum rétti sínum á rúmlega 3,3 milljónum króna og kveðst hún ekki ætla að nýta sér biðlaunin. „Ég hætti um leið og þingi lýkur í desember og mun ekki þiggja nein biðlaun. Ef ég væri að þessu fyrir launin myndi ég hætta í sveitarstjórn og vera á þinginu. Ég er orðin þreytt á þessari launaumræðu, þetta snýst ekkert um það.“

„Þar hef ég áhrif og er búin að koma mínu á framfæri þar, en hvernig eigum við að auka áhrif almennra þingmanna til að það verði raunverulegur árangur?“ Viðurkennir Theodóra að hún hafi haldið sig til hlés á síðasta þingi til að læra og fylgjast með hvernig öllum þeim ótalmörgu þingmálum sem þingmenn leggja fram vegnar. Henni hafi ekki litist á það sem hún sá.
„En ég hef ekki rætt þetta við ráðherrana því þetta átti ekki að vera aðalatriðið. Það er að ég brenn fyrir Kópavogi og langar til að vera þar í stefnumótun og framkvæmd verkefna. Í þinginu er eitthvað allt annað.“
Á mannamáli hafi hún prófað að vera þingmaður í ár og það hafi hreinlega ekki átt við hana. „Þetta bara hentar mér ekki. Ég er góð í stefnumótun og framkvæmd verkefna og langar að vera þar. Ég er ekki góð í að vera í málstofu, hafa hátt og niðurlægja fólk.“