Innlent

Unnið að því að koma í veg fyrir mengunarslys við Myrká

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Ökumaðurinn er ekki talinn mikið slasaður, en hann hefur verið fluttur á sjúkrahús.
Ökumaðurinn er ekki talinn mikið slasaður, en hann hefur verið fluttur á sjúkrahús. Myndir/Lögreglan á Norðurlandi eystra

Björgunarsveitir í Eyjafirði voru kallaðar út laust fyrir hádegi í dag vegna umferðarslyss við Búðará í Hörgárdal, skammt frá bænum Myrká, þar sem olíuflutningabíll lenti á vegriði og vegar nú salt á brúnni. Ökumaður bílsins hefur verið fluttur á sjúkrahús en hann er ekki talinn alvarlega slasaður.

Björgunarsveitarmenn voru sendir með búnað til straumsvatnsbjörgunar til þess að vinna að mengunarvörnum og þá er verið að koma upp flotgirðingum í ána.

Slysið varð á vatnsverndarsvæði Norðurorku í Hörgárdal. loftmyndir

Reimar Viðarsson,  sem stýrir aðgerðum svæðisstjórnar Landsbjargar, segir að bíllinn standi tæpt á brúnni og að óttast sé að olía muni leka í ána. Verið sé að tryggja aðstæður á vettvangi.

„Það hefur engin olía lekið úr bílnum og við erum að tryggja að það muni ekki gerast. Það er verið að koma upp flotgirðingum og bíllinn verði dreginn inn á brúna,“ segir Reimar í samtali við Vísi. Að fleiru sé hins vegar að huga:

„Þarna liggur rafmagnið í Hörgárdal auk þess sem ljósleiðarinn liggur þarna í gegn. Þannig að það eru þónokkuð margir aðilar sem koma að þessu,“ segir hann.

Aðspurður segir hann ekki liggja fyrir hvað orsakaði óhappið, en akstursskilyrði eru með ágætum þessa stundina.

Um 3000 lítrar af díselolíu voru í bílnum en svo virðist sem litið sem ekkert af olíu hafi lekið frá bílnum.

Uppfært klukkan 13:48: Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að óhappið hafi orðið inni á vatnsverndarsvæði Norðurorku í Hörgárdal.

Um 3000 lítrar af díselolíu voru í flutningabílnum en svo virðist sem lítil sem engin olía hafi lekið frá bílnum.

Verið er að vinna við að koma bílnum á réttan kjöl en að því verki koma slökkviliðið, lögreglan, starfsmenn Norðurorku og menn frá björgunarsveitinni Súlum.

Ekki er hægt að segja til um orsakir óhappsins að svo stöddu en rannsókn stendur yfir.

Uppfært klukkan 14:09: Reimar Viðarsson hjá Landsbjörg segir í samtali við Vísi að bíllinn sé kominn á hjólin og nú sé unnið að því að koma honum upp á veg með kranabílum.

Ekki liggur fyrir hvort dælt verði úr bílnum núna eða hvort það verði ekki gert fyrr en bíllinn er kominn upp á veg en Reimar segir að enn sem komið er hafi lítil sem engin olía lekið úr bílnum.

Slökkvilið, lögregla, starfsmenn Norðurorku og björgunarsveitarmenn koma að aðgerðum við brúna.
Ekki er vitað hvað olli óhappinu.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.