„Ég sendi liðið út með lambakjötið á föstudaginn. Annars erum við heppin að keppnin er í Hollandi því hér er gott hráefni í boði,“ segir Hinrik Ingi Guðbjargarson, kokkur kvennalandsliðsins.
Knattspyrnusamband Evrópu er með matseðil fyrir öll landsliðin í Hollandi og þar er að finna íslenskan þorsk. Hinrik Ingi segir sitt hlutverk að koma í nokkra daga og brjóta upp matseðilinn, með lambinu og svo er graflax með í för.
Lærdómsríkt smjörvesen í Úkraínu
Hinrik Ingi hefur hlotið góða dóma hjá leikmönnum karlalandsliðsins en hann hefur ferðast með liðinu í leiki í yfirstandandi undankeppni fyrir HM 2018 í Rússlandi.
„Ég fór með til Úkraínu, Króatíu og Albaníu,“ segir Hinrik Ingi þar sem ekki sé hægt að ganga að öllu vísu. Til dæmis lenti hann í miklu veseni með að gera bearnaise sósuna í fyrstu ferðinni til Úkraínu þar sem ekkert smjör var að fá.
„Ég læt ekki grípa mig aftur í bólinu með það,“ segir Hinrik Ingi hlæjandi. „Smjörið þar var eins og smjörlíki á bragðið. Ég tek með mér íslenskt smjör núna.“
Hinrik Ingi verður aðeins með stelpunum okkar fram að leiknum gegn Sviss á laugardaginn.
Tiplar á tánum til að byrja með
„Ég rétt náði að troða þessu inn í sumarfríið með fjölskyldunni,“ segir Hinrik sem tekur auðvitað fjölskylduna með. Þau ætla á leikinn gegn Frökkum í kvöld og svo fer hann með stelpunum upp á hótel eftir leik. Þar hittir hann fyrir kokka og þjóna á hóteli stelpnanna og þá er eins gott að fara að öllu með gát.
„Það eru sérstakar aðstæður að koma inn í nýtt eldhús. Að einhver vitleysingur sé mættur í eldhúsið til að segja mönnum til. Það þarf að fara rólega að mönnum,“ segir Hinrik og hlær.
„Maður verður að tipla á tánum til að byrja með. Ef þú færð þetta lið á móti þér ertu dauðadæmdur.“
