Um 221 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 35 þúsund fleiri en í júní á síðasta ári. Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir að fjölgunin nemi um 18,9 prósent á milli ára.
„Þar af eru Bandaríkjamenn talsvert hátt hlutfall. Þetta er minni fjölgun en við vorum að sjá í vetur en samt ekki lítil fjölgun.“
Um er að ræða svipaða hlutfallslega aukningu milli ára og í maímánuði en mun minni en mældist í janúar, febrúar, mars og apríl.
Frá áramótum hafa um 973 þúsund komið til landsins eða 39% fleiri en á tímabilinu janúar til júní 2016.
„Hlutfallsleg fjölgun á milli ára hefur auðvitað verið mjög mikil. Þær tölur sem við höfum séð hafa verið um og yfir kannski 50% oftast nær á undanförnum misserum. Það er ekki svo að segja að 17-19% fjölgun ferðamanna er mjög mikil fjölgun en hins vegar þá er þetta kannski til marks um að það sé að draga úr þessari ofboðslegu ásókn í Íslandsferðir,“ segir Ólöf.
Þá var ferðamannapúlsinn, sem mælir ánægju ferðamanna með dvöl sína á Íslandi, marktækt lægri núna í maí en í maí árið 2016.
Hann mælist nú 82,7 stig af 100 mögulegum en var 86,4 stig fyrir ári síðan.