Innlent

Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra fylgist með kosningabaráttu íhaldsmanna

Jakob Bjarnar skrifar
Fastlega má búast við því að Theresa May kunni vel að meta þennan góða liðsauka frá Íslandi.
Fastlega má búast við því að Theresa May kunni vel að meta þennan góða liðsauka frá Íslandi.
Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra, er nú stödd úti á Bretlandi og í miklum kosningaham. Hún gengur nú í hús á Twickenham og kynnir sér hvernig íhaldsmenn þar haga málum sínum.

Eins og kunnugt er verða þingkosningar á Bretlandi á morgun og er mikil spenna ríkjandi þeirra vegna.

„Gengum í hús á Twickenham með frambjóðanda Íhaldsflokksins daginn fyrir þingkosningar hér í Bretlandi. Sannfærðum marga og spennan magnast fyrir úrslitastund á morgun!“ skrifar Laufey Rún á Instagram. Við er myllumerki – „kosningasjúk“ og við er mynd af Laufey og tveimur öðrum.

Laufey Rún og Hilmar Freyr slógust í för með frambjóðanda Íhaldsflokksins en Bretar hafa þann hátt á, í kosningabaráttu, að ganga í hús og ræða við mann og annan.
Laufey Rún er er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og áhugasöm um kosningar en hún komst í fréttir þegar hún gekk vasklega fram við undirskriftasöfnun þegar Davíð Oddsson, nú ritstjóri Morgunblaðsins, bauð sig fram í forsetakosningum á Íslandi.

Uppfært 16:20

Vísir náði tali af Laufey Rún nú rétt í þessu. Hún segir misskilning, eins og fram kom í fyrri útgáfu fréttarinnar, að um undirskriftasöfnun sé að ræða. Þannig gangi þetta ekki fyrir sig.

„Ég er hér á mínum eigin vegum og fór í örskamma stund til að fylgjast með hvernig þeir haga kosningabaráttu sinni. Ég var ekki að safna undirskriftum, ekki þarna. Við hittum frambjóðanda sem er með mér á myndinni ásamt öðrum stjórnarmanni SUS. Skutumst þarna uppeftir í tvo tíma en ég er í London á eigin vegum, í fríi.“

Laufey Rún segir alltaf gaman að vera í London spurð hvort ekki sé líf og fjör, mikil spenna?

„Mjög áhugavert að hitta þetta fólk, og sjá hvernig þau gera þetta í sínu kjördæmi. Þeir gera þetta öðru vísi en heima. Þeir ganga í hús. Heima er annar háttur hafður á,“ segir Laufey Rún og segir lærdómsríkt og gaman að fylgjast með þessum æsispennandi kosningum.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×