Innlent

Húsgögn sýslumanns reyndust grundvöllur greiðslu skaðabóta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sýslumaðurinn bar sig ekki rétt að við útboðið.
Sýslumaðurinn bar sig ekki rétt að við útboðið. vísir/andri marinó
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þarf að greiða Pennanum skaðabætur vegna þátttöku síðarnefnda aðilans í útboði um kaup á skrifstofuhúsgögnum í húsnæði embættisins í Hlíðasmára. Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála.

Í útboðsgögnunum kom fram að leitað væri að „vönduðum, fallegum og stílhreinum húsgögnum sem gætu gefið nýjum vinnustað sterka sjálfsmynd með hlýlegu og heimilislegu yfirbragði“. Hagkvæmasta tilboðinu yrði tekið en þar vó verð 70 prósent en gæði vöru 30 stig.

Á endanum var tilboði Á. Guðmundssonar tekið en það hlaut rúm 81 stig. Tilboð Pennans hlaut hins vegar tæplega 81 stig. Forráðamenn Pennans töldu að upplýsingarnar í útboðinu hefðu verið of matskenndar og hefðu gefið sýslumannsembættinu of mikið svigrúm til að túlka tilboðin eftir eigin höfði.

Eitt tilboð Pennans var metið ógilt þar sem það innihélt hirslur úr harðplasti en ekki spónlagðri eik. Hin tilboðin innihéldu gestastóla og sófasæti en um sömu stóla var að ræða í öllum tilfellum. Embættið taldi að þeir hefðu ekki fallið vel að því útliti sem leitað var eftir. Slík húsgögn sé að finna í biðrýmum og því skipti þau miklu máli fyrir viðskiptavininn.

Það var mat kærunefndarinnar að þau atriði sem skoðunarhópur sýslumanns skyldi líta til varðandi mat á gæðum hefðu verið almenn og afar óljós í veigamiklum atriðum. Sökum þess, meðal annars, var fallist á að sýslumannsembættið væri bótaskylt gagnvart Pennanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×