Innlent

Íslenska ríkið braut gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni vegna málaferla fyrir íslenskum dómstólum tengdum skattalagabrotum í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums.

Dómstóllinn dæmdi íslenska ríkið til að greiða bæði Jóni Ásgeiri og Tryggva fimm þúsund evrur, auk alls 15 þúsund evra vegna málskostnaðar.

Þeir Jón Ásgeir og Tryggvi hlutu ásamt Kristínu Jóhannesdóttur skilorðsbundinn dóm árið 2013 fyrir skattalagabrot, en þeir kærðu dóminn til Mannréttindadómstólsins þar sem þeir sögðu málið brjóta gegn meginreglunni um bann við endurtekinni málsmeðferð. Áður höfðu þeir verið dæmdir til greiðslu sektar fyrir sömu brot.

Hæstiréttur dæmdi á sínum tíma Jón Ásgeir í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 62 milljónir króna sektar fyrir brot á skattalögum. Tryggvi hlaut átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og var dæmdur til að greiða 32 milljónir króna í sekt.

Í dómi Mannréttindadómstólsins kemur fram að þeir Jón Ásgeir og Tryggvi hafi enn ekki greitt sektirnar sem um ræðir og féllst dómurinn á kröfu þeirra um að greiðslurnar yrðu felldar niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×