Spáir þú mikið í tísku? „Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á fötum og tísku síðan ég man eftir mér. Tíska er miklu meira en bara eitthvert trend fyrir mér. Tískan gefur fötunum sögu og getur jafnvel komið mikilvægum skilaboðum á framfæri. Hver og einn hefur sinn stíl og ég elska að sjá hvernig fólk túlkar tísku á sinn hátt.“
Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl? „Ég elska liti og munstur og ég á mér engan svokallaðan þægindaramma þegar kemur að fatavali. „Vintage“ föt eru í miklu uppáhaldi, þau eiga oft sína eigin sögu og eru svo miklu meira en bara flík oft á tíðum. Rúskinn, kögur, flauel og pallíettur eru í miklu uppáhaldi.“

Eyðir þú miklu í föt? „Já, vandræðalega miklu. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að kaupa mér flott fataefni og flottar flíkur. Ég fæ oft þá spurningu hvort ég hafi reiknað veltuhraða flíkanna minna en ég get verið ansi fljót að umturna fataskápnum.“
Hver er uppáhaldsflíkin þín? „Örugglega pelsinn minn en mamma mín átti hann og nýju Miista-skórnir mínir sem ég fékk í Yeoman um daginn.“Áttu þér uppáhaldshönnuð? „Ég á mér marga uppáhaldshönnuði en ef ég myndi fá að velja mér flík frá hvaða fatahönnuði sem er myndi ég velja Alexander McQueen. Öll fötin hans eru einstök og hafa mikinn karakter. Nýja skólínan hans er t.d. er geggjuð.“

Notar þú fylgihluti? „Ég er mikið fyrir fallegar, litríkar töskur og áberandi belti. Ég hef aldrei verið mikið fyrir fíngerða skartgripi eins og eyrnalokka og sæt men. Það er mögulega vegna þess að það er svo smágert og mér tekst oftast nær að týna þeim.“
Áttu þér tískufyrirmynd? „Svala Björgvins og mamma mín. Svala er einstök og er með einn speisaðasta fatastíl sem ég veit um. Hún er ekki hrædd við að taka áhættu í fatavali. Mamma var aftur á móti algjör hippi og var mikið í þægilegum en mjög töff fötum. Ég man aðallega eftir henni í stórum munstruðum mussum og útvíðum gallabuxum. Svo átti hún líka margar flottar gallaskyrtur og þá man ég sérstaklega eftir einni sem var „oversized“ úr Levi’s.“