Innlent

Ungliðar Viðreisnar vilja heimila skemmtanahald á helgidögum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kjartan Þór Ingason og Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson afhenda Hönnu Katrínu frumvarpið.
Kjartan Þór Ingason og Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson afhenda Hönnu Katrínu frumvarpið.
Stjórn ungliðahreyfingar Viðreisnar afhenti Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmanni flokksins, frumvarp um breytingu á lögum um helgidagafrið í dag.

Á meðal þess sem frumvarpið kveður á um er að afnema lög sem banna skemmtanir, til að mynda dansleiki, happdrætti, markaði og bingó, á helgidögum.

Þá miðar frumvarpið einnig að því að aftengja löggjöfina þjóðkirkjunni. Myndi annar kafli laganna ekki lengur heita „Um helgidagafrið og helgidaga þjóðkirkjunnar“ heldur fá nafnið „Helgidagar þjóðarinnar“.

Í meðfylgjandi áskorun frá stjórn ungliðahreyfingarinnar segir að markmið frumvarpsins sé að veita landsmönnum aukið frelsi og sveigjanleika. Núgildandi lög samræmist ekki lífsgildum nútímasamfélags. Þeim sé ekki framfylgt af stjórnvöldum og þau hamli löglegu skemmtanahaldi.

Í anda frumvarpsins ætla umræddir ungliðar að halda bingó á föstudaginn langa en það gengur gegn núgildandi lögum. Stjórn ungliðahreyfingarinnar segist vona að þetta verði hennar fyrsti og síðasti ólöglegi viðburður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×